2010–2019
„Vera stöðugur í kærleika mínum“
Október 2016


„Vera stöðugur í kærleika mínum“

Kærleikur Guðs er óendanlegur og mun vara að eilífu, en merking hans fyrir sérhvert okkar er háð því hvernig við bregðumst við kærleika hans.

Í Biblíunni segir: „Guð er kærleikur.“1 Hann er fullkomin ímynd kærleikans og við reiðum okkur afar mikið á stöðugleika og algildi hans. Eins og Thomas S. Monson forseti hefur sagt: „Kærleikur Guðs er þar fyrir ykkur, hvort sem þið teljið ykkur verðskulda hann eða ekki. Hann er einfaldlega alltaf fyrir hendi.“2

Það er mögulegt að lýsa guðlegri elsku á marga vegu. Eitt af því sem oft er sagt á okkar tíma er að elska Guðs sé „skilyrðislaus.“ Þótt það sé rétt í ákveðnum skilningi, þá kemur lýsingin skilirðislaus hvergi fram í ritningunum. Í ritningunum er kærleika hans öllu heldur lýst sem „[mikilli og undursamlegri] ásts,“3 „[fullkominni elsku],“4 „endurleysandi elsku“5 og „ævarandi elsku.“6 Þessi hugtök eiga betur við, því hugtakið skilyrðislaus getur gefið ranga hugmynd um guðlegan kærleika, svo sem að Guð umberi og afsaki allt sem við gerum, því elska hans sé skilyrðislaus, eða að Guð vænti einskis af okkur, því elska hans sé skilyrðislaus eða að allir muni frelsast í hið himneska ríki Guðs, því elska hans sé skilyrðislaus. Kærleikur Guðs er óendanlegur og mun vara að eilífu, en merking hans fyrir sérhvert okkar er háð því hvernig við bregðumst við kærleika hans.

Jesús sagði:

„Ég hef elskað yður, eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðugir í elsku minni.

Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“7

Að „vera stöðugur“ í elsku frelsarans, felur í sér að taka á móti náð hans og fullkomnast í honum.8 Við verðum að eiga trú á Jesú Krist og halda boðorð hans, til að geta tekið á móti náð hans, iðrast synda okkar, láta skírast til fyrirgefningar syndanna, taka á móti heilögum anda og vera trúföst og halda áfram á vegi hlýðni.9

Guð mun ætíð elska okkur, en hann getur ekki frelsað okkur í syndum okkar.10 Hafið í huga orð Amúleks til Seeroms um að frelsarinn myndi ekki frelsa fólk sitt í syndum þess, heldur frá syndum þess,11 og að ástæða þess væri sú syndin gerði okkur óhrein og „að ekkert óhreint [gæti] erft ríki himins“12 eða dvalið í návist Guðs. „Og [Kristur] hefur fengið vald frá föðurnum til að endurleysa [fólk sitt] frá syndum [þess] vegna iðrunar. Þess vegna hefur hann sent engla sína til að boða tíðindin um skilyrði þeirrar iðrunar, sem leiðir menn undir vald lausnarans til hjálpræðis sálum sínum.“13

Í Mormónsbók lærum við að tilgangurinn með þjáningum Krists – æðstu staðfestingunni um kærleika hans – væri sá að „hjartans miskunnsemin, sem sigrar réttvísina, [næði] fram að ganga, og [opnaði] manninum leið til að öðlast trú til iðrunar.

„Og þannig getur miskunnsemin fullnægt kröfum réttvísinnar og umvefur þá örmum öryggisins, á meðan sá, sem ekki iðkar trú til iðrunar, er varnarlaus gagnvart öllu lögmálinu um kröfur réttvísinnar. Þess vegna kemur hin mikla og eilífa endurlausnaráætlun einungis þeim til góða, sem á trú til iðrunar.“14

Iðrunin er því gjöf hans til okkar, keypt afar dýru verði.

Einhverjir gætu fullyrt að Guð blessi alla, án þess að gera greinarmun þar á – með því að vísa t.d. Í orð Jesú í Fjallræðunni: „[Guð] lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“15 Vissulega úthellir Guð öllum þeim blessunum sem hann getur yfir öll sín börn – öllum blessunum sem kærleikur, lögmál, réttvísi og miskunn gera kleift. Hann býður okkur að vera örlát eins og hann er:

„Ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður,

svo að þér reynist börn föður yðar á himnum.“16

Æðri blessanir Guðs eru hins vegar bundnar því skilyrði að hlýða. Russell M. Nelson forseti útskýrði: „Hinn dýrðlegi kærleikur Guðs – þar með talið eilift líf – felur í sér blessanir sem við verðum að verðskulda, ekki sem við getum gert tilkall til óverðskuldað. Syndugir geta ekki beygt vilja Guðs að sínum og vænst þess að hann blessi þá í eigin syndum [sjá Alma 11:37]. Ef slíkir þrá að njóta allra hinna dýrðlegu blessana Guðs, þá verða þeir að iðrast.“17

Hinum iðrunarfulla, saklausa og flekklausa er lofað að honum verði „lyft upp á efsta degi,“18 en það er líka annar mikilvægur þáttur sem tengist því að vera stöðugur í kærleka Guðs. Að vera stöðugur í kærleika hans, mun gera okkur kleift að sjá möguleika okkar á því að verða eins og hann sjálfur er.19 Eins og Dieter F. Uchtdorf forseti sagði: „Guðsnáð reisir okkur ekki einungis til okkar fyrra saklausa ástands. … Markmið hann er mikið hærra: Hann vill að synir hans og dætur verði eins og hann.“20

Að vera stöðugur í kærleika Guðs, í þessum skilningi, er að beygja sig algjörlega undir vilja hans. Það er að sætta sig við umvöndun hans, sé þörf á henni, „því að Drottinn agar þann, sem hann elskar.“21 Það merkir að elska og þjóna hvert öðru eins og Jesús elskaði og þjónaði okkur.22 Það er að læra að „[standast] lögmál himneska ríkisins,“ svo við fáum „staðist himneska dýrð.“23 Því er það svo, að til þess að himneskur faðir geti hámarkað framþróun okkar, þá býður hann okkur að „[láta] undan umtölum hins heilaga anda, [losa okkur] úr viðjum hins náttúrlega manns og [verða heilög] fyrir friðþægingu Krists, sjálfs Drottins, og [verða] sem barn, undirgefinn, hógvær, auðmjúkur, þolinmóður, elskuríkur og reiðubúinn að axla allt, sem Drottni þóknast á [okkur] að leggja, á sama hátt og barn, sem beygir sig fyrir föður sínum.“24

Öldungur Dallin H. Oaks sagði: „Lokadómurinn er ekki bara samantekt á öllum okkar góðu og slæmu verkum – því sem við höfum gert. Hann er staðfesting á endanlegum áhrifum verka og hugsana okkar – á því sem við höfum orðið.25

Frásögnin um Helen Keller sýnir hvernig guðleg elska megnar að umbreyta fúsri sál. Helen fæddist árið 1880, í Alabama-fylki í Bandaríkjunum. Aðeins 19 mánaða gömul fékk hún óþekktan sjúkdóm, sem gerði hana bæði heyrnarlausa og blinda. Hún var afar greind og varð svekkt og pirruð er hún reyndi að skilja og átta sig á umhverfi sínu. Þegar Helen skynjaði að fjölskylda hennar hreyfði varirnar og áttaði sig á því að þau notuðu munninn til að tala, þá „varð hún ofsareið, því hún gat ekki tekið þátt í samræðunum.“26 Við sex ára aldur urðu „reiðiköstin dagleg, stundum á klukkutíma fresti,“27 því vonbrigðin voru svo mikil yfir að geta ekki tjáð sig.

Foreldrar Helenar réðu kennara fyrir dóttur sína, konu að nafni Anne Sullivan. Anne hafði sjálf glímt við mikla og erfiðeika og hafði því skilning á veikleikum Helenar, á líkan hátt og frelsarinn skilur veikleika okkar.28 Þegar Anne var fimm ára hafði hún smitast af sjúkómi sem olli sársaukafullri örmyndun á augnhimnunni, svo hún varð blind að mestu. Þegar Anne varð átta ára gömul, lést móðir hennar; faðir hennar yfirgaf hana og yngri bróður hennar, Jimmie; og þau voru send á „fátækrahæli“, þar sem aðstæður voru svo ömurlegar að Jimmie lést þar, eftir aðeins þrjá mánuði. Af elju og þrautseigju fékk Annie inngöngu í Perkins-skólann, sem var blindraskóli, þar sem hún stóð sig með prýði. Hún hlaut bætta sjón með skurðaðgerð, svo hún gat lesið prentað mál. Þegar faðir Helenar Keller leitaði til Perkins-skólans, eftir kennara fyrir dóttur sína, varð Anne Sullivan fyrir valinu.29

Til að byrja með, þá var þetta ekki ánægjuleg reynsla. Helen „lamdi, kreisti og sparkaði í kennarann og sló úr henni tönn. Anne náði loks stjórninni, er hún flutti með [Helen] í lítinn kofa á landi Kellers-hjónanna. Með þolinmæði og þrautseigju, tókst henni loks að ávinna sér elsku og traust barnsins.“30 Á líkan hátt, er við förum að treysta okkar guðlega meistara, án mótspyrnu, þá getur hann farið að vinna með okkur og lyfta okkur upp í nýjar víddir.31

Til að hjálpa Helen að læra orð, þá stafaði Anne heiti kunnuglegra hluta með fingrum sínum í lófa Helenar. „[Helen] naut þessara ‚fingurleikja,‘ en hún skildi þá ekki fyrr en hin uppljómaða stund rann upp að Anne starfaði ‚v-a-t-n,‘ um leið og hún lét vatn renna yfir hönd [Helenar]. [Helen] skrifaði síðar:

„‚Skyndilega vaknaði hjá mér óljós vitund um eitthvað sem fallið hafði í gleymsku; … og einhvern veginn opnaðist fyrir mér leyndardómur tungumálsins. Það rann upp fyrir mér ljós að „v-a-t-n“ væri hið dásamlega kalda, sem rann yfir hönd mína. Þetta lifandi orð lífgaði sál mína, gaf mér ljós, von, gleði, svo hún fór á flug! … Allt átti sér heiti og hvert heiti gat af sér nýja hugsun. Á leið okkar í húsið, þá virtist allt sem … ég snerti víbra af lífi.‘“32

Ljósmynd
Helen Keller og Anne Sullivan

Þegar Helen Keller varð fullorðinn, varð hún kunn fyrir áhuga sinn á tungumáli, góða rithæfni og mælsku sem opinber ræðumaður.

Í kvikmynd um ævi Helenar Kellar, kemur fram að foreldrar hennar urðu ánægðir með starf Anne Sullivan þegar henni hafði tekist að temja hina óstýrilátu dóttur svo Helen gat setið af háttsemi við matarborði, borðað eðlilega og brotið saman munnþurrkuna við lok máltíðar. Anne vissi hins vegar að Helen gat gert svo miklu meira og að hún hefði nokkuð merkilegt fram að færa,33 Við getum aftur á móti látið okkur nægja það sem við höfum áorkað í lífinu, og að við séum einfaldlega það sem við nú erum, þótt frelsari okkar ætli okkur dýrðleg örlög, sem við sjáum aðeins nú „sem í skuggsjá.“34 Sérhvert okkar getur upplifað alsælu þess að finna hinar guðlegu möguleika vakna hið innra, sem er nokkuð líkt þeirri gleði sem Helen Keller upplifði þegar orðin lifnuðu við, upplýstu sál hennar og settu hana á flug. Sérhver okkar getur elskað og þjónað Guði og hlotið kraft til að blessa náunga okkar. „Það er eins og ritað er: Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.“35

Við skulum ígrunda gjaldið fyrir hinn dýrmæta kærleika Guðs. Jesús opinberaði að til að friðþægja fyrir syndir okkar og endurleysa okkur frá dauða, bæði líkamlegum og andlegum, þá varð þjáning hans þess valdandi að hann „sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu, og þjáðist bæði á líkama og í anda – og með hrolli óskaði [hann] þess að þurfa ekki að bergja þennan beiska bikar.“36 Sálarkvöl hans í Getsemane og á krossinum var meiri en nokkur dauðlegur maður fékk borið.37 Engu að síður, þá þoldi hann þetta, vegna elsku sinnar til föður síns og okkar, og getur því boðið okkur ódauðleika og eilíft líf.

Ljósmynd
Olífupressa

Það er átakanlega táknrænt að það var í Getsemane sem Jesús þjáðist, á stað ólífupressunnar, svo að „blóð [draup] úr hverri svitaholu.“38 Á tímum frelsarans var ólífuolía búin til með því að merja fyrst ólífurnar undir stórum veltandi steini. Þannig varð til „mauk“ sem sett var í deigar gróffléttaðar körfur, sem staflað var ofan á hver aðra. Þunginn pressaði út fyrstu og bestu olíuna. Stór og þungur bjálki var síðan settur ofan á körfurnar til að ná fram meiri olíu. Steinum var loks staflað ofan á bjálkann, til að ná fram mestri mögulegri pressu og kreista fram síðustu dropana.39 Já, benda má á að olían er blóðrauð þegar hún fyrst streymir út.

Ljósmynd
Olífupressa ásamt olífuolíu

Mér verður hugsað til frásagnar Matteusar um komu frelsarans í Getsemane kvöldið örlagaríka – en þá „setti að honum hryggð og angist. …

Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll fram á ásjónu sína, baðst fyrir og sagði: Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“40

Eins og ég sé það fyrir mér, þá hafa þjáningarnar hans eftir það orðið jafnvel enn sárari. Hann bað í annað sinn um líkn og loks í þriðja sinn, hugsanlega er þjáningar hans voru í hámarki. Hann stóðst angistina allt þar til síðasti dropi hafði endanlega fullnægt réttvísinni.41 Þetta gerði hann til að endurheimta þig og mig.

Hve dýrmæt gjöf hinn guðlegi kærleikur! Jesús spurði, fyltur þeim kærleika: „Viljið þér nú ekki snúa til mín og iðrast synda yðar og snúast til trúar, svo að ég megi gjöra yður heila?“42 Ljúflega fullvissar hann okkur: „Armur miskunnar minnar er útréttur til yðar, og ég mun taka á móti hverjum þeim, sem koma vill. Og blessaðir eru þeir, sem koma til mín.“43

Munið þið elska hann, sem elskaði okkur að fyrra bragði?44 Haldið þá boðorðin hans.45 Munið þið verða vinir hans, sem lagði lífið í sölurnar fyrir vini sína?46 Haldið þá boðorðin hans.47 Munið þið vera stöðug í kærleika hans og öðlast allt það sem hann náðarsamlegast veitir ykkur? Haldið þá boðorðin hans.48 Ég bið þess að við skynjum og stöndum stöðug í kærleika hans, í nafni Jesú Krists, amen.