2010–2019
Eilífar fjölskyldur
Apríl 2016


Eilífar fjölskyldur

Við ættum að hafa þá prestdæmisábyrgð í fyrirrúmi að huga að eigin fjölskyldu og fjölskyldum þeirra sem í kringum okkur eru.

Ég er þakklátur fyrir að vera meðal ykkur á þessum aðalfundi prestdæmisins í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Þetta er merkilegur fundur í sögu kirkjunnar. Fyrir eitt hundrað átta tíu og tveimur árum, árið 1834, í Kirtland, Ohio, voru allir prestdæmishafar saman komnir í skólahúsi, sem var bjálkakofi, um 4 x 4 metrar að flatarmáli. Á þeim fundi er skráð að spámaðurinn Joseph Smith hafi sagt: „Þið vitið ekki meira um örlög þessarar kirkju og ríkis en barn í kjöltu móður. Skilningur ykkar á þessu er enginn. … Hér … sjáið þið aðeins örfáa prestdæmishafa, en kirkjan mun fylla Norður- og Suður-Ameríku – hún mun fylla alla jörðu.“1

Milljónir prestdæmishafa, í yfir 110 löndum, eru saman komnir á þennan fund. Spámaðurinn Joseph hefur kannski séð þennan tíma fyrir og hina dýrðlegu komandi framtíð.

Boðskapur minn í kvöld er tilraun til að lýsa þeirri framtíð og leggja áherslu á það sem við þurfum að gera til að vera þátttakendur í þeirri sæluáætlun sem faðir okkar á himnum hefur búið okkur. Áður en við fæddumst, lifðum við í fjölskyldu með okkar upphafna og eilífa himneska föður. Hann bjó til áætlun sem gerði okkur kleift að þróast og þroskast og verða eins og hann er. Hann gerði það sökum elsku sinnar til okkar. Tilgangur áætlunar hans var að veita okkur þau forréttindi að lifa að eilífu eins og himneskur faðir gerir. Áætlun fagnaðarerindisins sá okkur fyrir dauðlegu lífi, þar sem við yrðum reynd. Okkur var gefið fyrirheit um að fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists, gætum við öðlast eilíft líf, sem er æðsta gjöf allra gjafa, ef við værum hlýðin lögmálum fagnaðarerindisins og helgiathöfnum prestdæmisins.

Eilíft líf er af sömu gæðum og Guð okkar eilífi faðir býr við. Guð hefur sagt að verk hans sé „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39). Hinn mikli tilgangur sérhvers prestdæmishafa er því að aðstoða við það verk að liðsinna fólki til eilífs lífs.

Allt starf prestdæmisins og allar helgiathafnir prestdæmisins miða að því að hjálpa börnum himnesks föður að umbreytast fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists og verða hluti af kjörinni fjölskyldueiningu. Það felur í sér að „hið mikla verk sérhvers manns er að trúa fagnaðarerindinu, halda boðorðin og skapa og fullkomna eilífa fjölskyldueiningu,“2 og hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama.

Þar sem sú er raunin, þá ætti himneskt hjónaband að vera miðpunktur alls sem við gerum. Það merkir að við ættum að keppa að því að innsiglast eilífum lífsförunaut í musteri Guðs. Við verðum líka að hvetja aðra til að gera og halda sáttmála sem innsigla saman eiginmann og eiginkonu, og börn þeirra þeim, í þessu lífi og komandi heimi.

Af hverju ætti þetta að vera okkur öllum svo brýnt – ungum sem öldnum, djáknum eða háprestum, sonum eða feðrum? Það er vegna þess að við ættum að hafa þá prestdæmisábyrgð í fyrirrúmi að huga að eigin fjölskyldu og öðrum fjölskyldum umhverfis. Allar meiriháttar ákvarðanir ættu að taka mið af því hvaða áhrif þær hafa á möguleika fjölskyldunnar að lifa með himneskum föður og Jesú Kristi. Ekkert sem viðkemur prestdæmisþjónustu okkar er mikilvægara þessu.

Ég skal segja ykkur hvaða þýðingu þetta getur haft fyrir þann djákna sem hlýðir á í kvöld, sem meðlim fjölskyldueiningar og sveitarmeðlim.

Í fjölskyldu hans gætu kannski eða kannski ekki verið reglubundnar fjölskyldubænir eða fjölskyldukvöld. Ef faðir hans finnur hjá sér löngun til að framfylgja þessum skyldum og kallar fjölskylduna saman til bænagjörðar eða ritningarlesturs, þá gæti djákninn verið fljótur til að taka þátt með bros á vör. Hann gæti hvatt systkini sín til að taka þátt og hrósað þeim þegar þau gera það. Hann gæti beðið föður sinn um blessun í upphafi skólans eða við önnur tækifæri eftir þörfum.

Það gæti verið að hann ætti ekki slíkan trúfastan föður. Það er einmitt þrá hjarta hans til eftir slíkum upplifunum sem færir þeim sem umhverfis hann eru, kraft himins, sökum trúar hans. Þau munu sækjast eftir því fjölskyldulífi sem djákninn þráir af öllu hjarta.

Kennari Aronsprestdæmisins gæti, í heimiliskennslu sinni, séð tækfæri til að hjálpa Drottni að breyta lífi fjölskyldu. Drottinn benti á það í Kenningu og sáttmálum:

„Skylda kennarans er að vaka stöðugt yfir söfnuðinum, vera með honum og styrkja hann–

Og sjá um að hvorki tíðkist misgjörðir í kirkjunni, harka í garð hver annars, lygi, rógburður, né illt umtal“ (K&S 20:53–54).

Presti í Aronsprestdæminu er á líkan hátt veitt þessi skylda:

„Skylda prestsins er að prédika, kenna, útskýra, hvetja og skíra og þjónusta sakramentið–

Og vitja heimilis sérhvers meðlims og hvetja þá til að biðja upphátt og í leynum og rækja allar skyldur við fjölskyldu sína“ (K&S 20:46–47).

Þið gætuð velt fyrir ykkur, líkt og ég gerði sem ungur kennari og prestur, hvernig í ósköpunum ég gæti tekist á við þessar áskoranir. Ég var aldrei viss um hvernig brýna ætti fyrir fjölskyldu að sækja fram til eilífs lífs án þess að misbjóða eða virðast gagnrýna. Mér hefur lærst að eina áminningin sem umbreytir hjörtum, er sú sem heilagur andi veitir. Það gerist oftast þegar við flytjum vitnisburð um frelsarann, sem var og er hinn fullkomni fjölskyldumeðlimur. Ef við einblínum á elsku okkar til hans, mun eining og friður aukast á því heimili sem við vitjum. Heilagur andi mun vera með okkur í þjónustu okkar við fjölskyldur.

Hinn ungi prestdæmishafi gæti miðlað áhrifum og fordæmi frelsarans í hug þeirra og hjarta, með bænatjáningu sinni og hvernig hann talar og hvetur meðlimi fjölskyldunnar.

Einn vitur prestdæmisleiðtogi sýndi mér að hann hafði skilning á þessu. Hann bauð ungum syni mínum að taka frumkvæðið í heimiliskennslunni. Hann sagði fjölskylduna geta tekið slæglega í hvatningu hans, en hann taldi einfalda kennslu og vitnisburð pilts líklegri til að hafa áhrif á hörðnuð hjörtu þeirra.

Hvað getur hinn ungir öldungur gert til að aðstoða við sköpun eilífra fjölskyldna? Hann getur verið í þann mund að fara á trúboðsakurinn. Hann getur beðist fyrir af öllu hjarta um að finna fjölskyldur til að kenna og skíra. Ég man enn eftir myndarlegum ungum manni með sína fallegu brúður og tvær yndislegar ungar dætur sitjandi dag einn með mér og trúboðsfélaga mínum. Heilagur andi vitnaði fyrir þeim að fagnaðarerindi Jesú Krists hefði verið endurreist. Trú þeirra var nægileg til að þau spurðu hvort við gætum veitt tveimur litlu dætrum þeirra blessun, líkt og þau höfðu séð gert á einni af sakramentissamkomum okkar. Þau þráðu þegar blessun fyrir börnin sín, en þau skildu ekki að hinar æðri blessanir væru aðeins fáanlegar í musterum Guðs, eftir sáttmálsgjörð þeirra.

Mér finnst enn sárt að hugsa um þessi hjón og litlu dætur þeirra, sem eru nú væntanlega fullorðnar, án fyrirheitsins um eilífa fjölskyldu. Foreldrarnir hlutu hið minnsta hugboð um þær blessanir sem hefðu getað orðið þeirra. Ég vona að einhvern vegin, einhversstaðar, gefist þeim tækifæri að nýju til að vera hæf til að vera eilíf fjölskylda.

Aðrir öldungar sem fara á akurinn munu hljóta þá gleðilegu reynslu sem sonur minn, Matthew, hlaut. Hann og félagi hans fundu ekkju með ellefu börn sem lifðu við fábrotnar aðstæður. Hann óskaði þeim hins sama og þið óskið ykkur – að eiga eilífa fjölskyldu. Syni mínum fannst það ómögulegt eða hið minnsta ólíklegt á þessum tímapunkti.

Ég heimsótti þessa litlu borg mörgum árum eftir að sonur minn skírði ekkjuna og hún bauð mér að hitta fjölskyldu sína í kirkju. Ég þurfti að hinkra örlítið, því flest börnin hennar komu með mörg barnabörn hennar frá nokkrum kapellum á svæðinu. Einn sonur hennar þjónaði trúfastlega í biskupsráði og flest börnin hennar höfðu verið blessuð með musterissáttmálum og hún var innsigluð eilífri fjölskyldu. Þegar ég kvaddi þessa kæru systur, tók hún utan um mig miðjan (hún var afar lágvaxin og náði vart að taka utan um mig miðjan) og sagði: „Segðu Mateo að koma aftur til Síle áður en ég dey.“ Hún hafði hlotið hina gleðilegu von um æðstu gjöf allra gjafa Guðs, vegna þessara trúföstu öldunga.

Það er nokkuð sem öldungur verður að gera, er hann kemur heim af trúboði, til að vera trúr þeirri skuldbindingu sinni að keppa að eilífu lífi fyrir sig sjálfan og ástvini sína. Engin skuldbinding er mikilvægari um tíma og eilífð en hjónabandið. Þið hafið hlýtt á þá viturlegu leiðsögn að hafa hjónabandið í fyrirrúmi í lífsins áætlunum fljótlega eftir trúboðið. Hinn trúfasti prestdæmisþjónn mun fara viturlega að.

Þegar hann ráðgerir hjónaband, þá mun hann gera sér grein fyrir að hann er að velja sér foreldri fyrir börnin sín og arfleifð þeirra. Hann mun velja og leita af einlægni og bænheitri ígrundun. Hann mun gæta þess að sú sem hann giftist hafi sömu hugmyndir um fjölskyldu, sannfæringu hans um tilgang Drottins með hjónabandi, og að hann geti fúslega treyst henni fyrir hamingju barna hans.

N. Eldon Tanner forseti veitti þessa vitru leiðsögn: „Þeir foreldrar sem þið ættuð að heiðra umfram aðra, eru foreldrar tilvonandi barna ykkar. Þau börn eiga rétt á bestu hugsanlegu foreldrum sem þið getið veitt þeim – flekklausum foreldrum.“3 Hreinleikinn verður vörn ykkar og barna ykkar. Þau eiga þá blessun inni hjá ykkur.

Í kvöld eru eiginmenn og feður sem á hlýða. Hvað getið þið gert? Ég vona að þið þráið heitar að gera allar nauðsynlegar breytingar til að þið og fjölskylda ykkar getið einhvern tíma lifað í himneska ríkinu. Sem prestdæmishafar og feður, með eiginkonu við hlið ykkar, getið þið haft áhrif á hjarta hvers fjölskyldumeðlims, og hvatt fjölskyldu ykkar til að vænta slíks dags. Þið munuð sækja sakramentissamkomur með fjölskyldu ykkar, hafa fjölskyldufundi, þar sem heilagur andi ríkir, biðjast fyrir með eiginkonu ykkar og börnum og búa ykkur undir að fara sem fjölskylda í musterið. Þið munuð sækja fram með þeim á veginum til hinna eilífu heimkynna fjölskyldunnar.

Þið munuð koma fram við eiginkonu ykkar og börn á sama hátt og himneskur faðir hefur komið fram við ykkur. Þið munuð fylgja fordæmi og leiðsögn frelsarans við að leiða fjölskyldu ykkar.

„Engu valdi eða áhrifum er hægt eða ætti að beita af hendi prestdæmisins, heldur með fortölum einum, með umburðarlyndi, með mildi og hógværð og með fölskvalausri ást–

Með góðvild og hreinni þekkingu, sem stórum mun þroska sálina, án hræsni og án flærðar–

Vanda um tímanlega með myndugleik, þegar heilagur andi hvetur til þess, og auðsýna síðan vaxandi kærleik þeim, sem þú hefur vandað um við, svo að hann telji þig ekki óvin sinn“ (K&S 121:41–43).

Drottinn hefur sagt prestdæmishöfum sem eru feður hvernig eiginmenn þeim ber að vera. Hann sagði: „Þú skalt elska eiginkonu þína af öllu hjarta þínu og vera bundinn henni og engu öðru“ (K&S 42:22). Þegar Drottinn mælir til bæði eiginmanns og eiginkonu, þá býður hann: „Þú skalt ekki … drýgja hór, … né nokkuð því líkt“ (K&S 59:6).

Hvað unga fólkið varðar, þá hefur Drottinn boðið: „Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til“ (Kol 3:20) og „heiðra föður þinn og móður þína“ (2 Mós 20:12).

Þegar Drottinn mælir til allra í fjölskyldunni, þá hvetur hann til elsku og stuðnings hver annars.

Hann býður okkur að „keppa að því að fullkomna hvern … meðlim“ í fjölskyldunni, til að „styrkja hinn veika; endurheimta þá ástvini sem farið hafa afvega, og fagna yfir hinum endurnýjaða andlega styrk þeirra.“4

Drottinn hefur líka boðið að við gerum allt sem við getum til að hjálpa okkar dánu til að vera með okkur í okkar eilífu heimkynnum.

Sá háprestur og flokksleiðtogi sem hefur starfað af kostgæfni við að hjálpa fólki að finna áa sína og fara með nöfn þeirra í musterið, er að að bjarga þeim sem á undan hafa farið. Þeir háprestar sem það gera, munu fá þakkir fyrir í komandi heimi, og líka þeir sem gera helgiathafnirnar mögulegar, því þeir hafa ekki gleymt ættmennum sínum í andaheiminum.

Spámenn hafa sagt: „Mikilvægasta verk Drottins sem þið fáið unnið, er innan veggja heimilis ykkar. Heimiliskennsla, starf biskupsráðs og aðrar skyldur kirkjunnar eru allar mikilvægar, en mikilvægasta starfið fer fram innan veggja heimilis ykkar.“5

Á heimili okkar, og í prestdæmisþjónustu okkar, munu hin smáu verk hafa mest gildi, sem hjálpa okkur og þeim sem við elskum að sækja fram til eilífs lífs. Slík verk kunna að láta lítið yfir sér í þessu lífi, en munu færa ævarandi blessanir í eilífðinni.

Þegar við erum trúfastir í þjónustu okkar við að liðsinna börnum himnesks föður á leið þeirra til heim til hans, munum við verðskulda þau heillaorð, sem við allir þráum svo innilega að heyra eftir að jarðneskri þjónustu okkar lýkur. Það eru orðin: „„Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns“ (Matt 25:21).

Meðal þess sem „mikið“ er, er loforðið um óendanlega niðja. Ég bið þess að við megum allir verðskulda þá dásamlegu blessun og hjálpa öðrum að verðskulda hana, í heimkynnum föður okkar og hans ástkæra sonar, Jesú Krists. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith (2007), 137.

  2. Bruce R. McConkie, í Conference Report, apríl 1970, 26.

  3. N. Eldon Tanner, Church News, 19. apríl 1969, 2.

  4. Bruce R. McConkie, í Conference Report, apríl 1970, 27.

  5. Harold B. Lee, Decisions for Successful Living (1973), 248–49.