2010–2019
Fyrirmynd friðar
Apríl 2016


Fyrirmynd friðar

Sá friður sem við sækjumst eftir krefst athafnar – að við lærum af Jesú Kristi, hlustum á orð hans og fylgjum honum.

Fyrir fáeinum árum voru dóttir mína og tengdasonur beðin um að kenna í sameiningu námsbekk fimm fjögurra ára gamalla drengja í Barnafélaginu. Dóttir okkar var útnefnd sem kennari og tengdasonur okkar sem aðstoðarkennari og þau gerðu sitt besta til að viðhalda stillingu, þótt stundum væri læti, til að geta kennt börnunum fagnaðarerindið.

Eftir að hafa aðvarað lítinn og fjörugan dreng ótal sinnum í einkar erfiðri kennslustund, fór tengdasonur minn með fjögurra ára drenginn út úr kennslustofunni. Þegar hann hafði farið út úr kennslustofunni og var í þann mund að veita litla drengnum tiltal vegna hegðunar hans og finna foreldra hans, stöðvaði litli drengurinn tengdason minn, áður en hann kom upp orði, og sagði með uppréttri hendi og af mikilli tilfinningu: „Stundum – stundum – er bara erfitt fyrir mig að hugsa um Jesú!“

Í ferð okkar um jarðlífið erum við öll háð sút og sorg, hversu dýrðlegur sem okkar fyrirhugaði ákvörðunarstaður er og gleðilega ferðin kann að reynast. Öldungur Joseph B. Wirthlin sagði: „Bendill sorgarhjólsins mun að lokum benda á hvert okkar. Á einum eða öðrum tíma verðum við öll að upplifa sorgina. Engin er þar undanskilinn.“1 „Af visku sinni hlífir Drottinn engum frá hryggð og sorg.“2 Hvort við ferðumst á þeim vegi í friðsæld eða ekki, ákvarðast að stórum hluta af því hvort við eigum erfitt með að hugsa um Jesú eða ekki.

Hugarfriður, samviskufriður og hjartansfriður ákvarðast ekki af getu okkar til þess að forðast raunir og sút og sorg. Þrátt fyrir einlægar bænir, mun það ekki lægja alla storma eða lækna allan hrumleika og ekki er víst að við skiljum fyllilega allar kenningar, reglur eða breytni sem spámenn, sjáendur og opinberarar kenna. Okkur hefur þó verið lofað friði – að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Í Jóhannesarguðspjalli kennir frelsarinn, að þrátt fyrir erfiðleika lífsins, þá getum við verið glöð og vongóð, án þess að vera óttaslegin, því hann hefur sagt: „Þér eigið frið í mér.“3 Trú á Jesú Krist og friðþægingu hans er og mun ætíð vera frumregla fagnaðarerindisins og sá grunnur sem von okkar um „frið í þessum heimi og eilíft líf í komanda heimi“ byggist á.4

Okkur til aðstoðar við að finna frið mitt í daglegum erfiðleikum, þá hefur okkur verið séð fyrir einfaldri fyrirmynd, til að beina hugsunum okkar að frelsaranum, sem sagði: „Lær af mér og hlusta á orð mín. Gakk í hógværð anda míns og þú munt eiga frið í mér. Ég er Jesús Kristur.“5

Lær, hlusta og gakk – þrjú skref með fyrirheiti.

Fyrsta skrefið: „Lærið af mér“

Í Jesaja er ritað: „Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall Drottins, til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.‘“6

Í hinum stöðugt fjölgandi musterum víða um heim, lærum við um Jesú Krist og hlutverk hans í áætlun föðurins, sem skapara þessa heims, frelsara okkar og lausnara og uppsprettu friðar.

Thomas S. Monson forseti sagði: „Heimurinn getur stundum verið vandasamur og erfiður staður að lifa í. … Þegar við förum í heilagt hús Guðs, þegar við minnumst sáttmálanna sem við höfum gert þar, munum við geta staðist allar raunir og sigrast á hverri freistingu. Í þessum helgu híbýlum finnum við frið.“7

Á stikuráðstefnu sem ég fór á fyrir nokkrum áum, þegar ég þjónaði í Suður-Ameríku, hitti ég hjón sem syrgðu son sinn sem stuttu áður hafði dáið sem ungbarn.

Ég kynntist fyrst bróður Tumiri í viðtali eftir ráðstefnuna og heyrði af missi hans. Í samtali okkar sagði hann mér ekki aðeins frá því hve sorgmæddur hann væri yfir dauða sonar síns, heldur líka hve niðurbrotinn hann væri yfir þeirri hugsun að geta aldrei aftur séð hann. Hann útskýrði, að sem tiltölulega nýir meðlimir kirkjunnar hefðu þau lagt fyrir til að fara einu sinni í musterið, áður en litli drengurinn þeirra fæddist, þar sem þau hefðu verið innsigluð sem hjón og dætur þeirra tvær innsiglaðar þeim. Hann útskýrði síðan hvernig þau hefðu lagt fyrir til að fara aftur í musterið, en hefðu ekki getað tekið með sér litla drenginn sinn til að innsigla hann þeim líka.

Þar sem ég uppgötvaði að um hugsanlega misskilning væri að ræða, þá útskýrði ég að hann mundi vissulega sjá son sinn aftur, ef hann væri trúfastur, því helgiathöfn innsiglunar sem hafði bundið hann eiginkonu sinni, nægði líka til að binda son hans þeim, því hann hefði fæðst í sáttmálanum.

Hann spurði hissa hvort það væri í raun svo og síðan hvort ég væri fús til að tala við eiginkonu hans, sem hafði verið óhuggandi þessar tvær vikur frá dauða sonar þeirra.

Eftir ráðstefnuna, á sunnudagssíðdegi, hitti ég systur Tumiri og útskýrði líka fyrir henni þessa dásamlegu kenningu. Af sársauka yfir hinum nýlega missi, en nú vonarbliki, spurði hún tárvot: „Mun ég í raun geta haldið á litla drengnum mínum aftur í fangi mér? Tilheyrir hann mér í raun að eilífu?“ Ég sannfærði hana um að ef hún héldi sáttmála sína, mundi innsiglunarvald musterisins, sem væri raunverulegur sökum valds Jesú Krists, vissulega gera það að verkum að hún gæti verið með syni sínum aftur og haldið honum í örmum sér.

Þótt systir Tumiri væri full sorgar yfir dauða sonar síns, þá fór hún af samkomunni fyllt friði með þakklætistár í auga sökum helgiathafna musterisins, sem frelsari okkar og lausnari gerði mögulegar.

Alltaf þegar við förum í musterið – og í öllu sem við heyrum, gerum og segjum; í öllum helgiathöfnum sem við tökum þátt í; og í öllum sáttmálum sem við gerum – þá er Jesús Kristur miðpunkturinn. Við finnum frið þegar við hlustum á orð hans og lærum af fordæmi hans. Gordon B. Hinckley forseti kenndi: „Farið í hús Drottins og finnið þar anda hans og eigið við hann samskipti og þið munið finna frið sem ekki fæst annarsstaðar.“8

Annað skrefið: „Hlustið á orð mín“

Í Kenningu og sáttmálum er ritað: „Hvort sem það er sagt með minni eigin rödd eða með rödd þjóna minna, það gildir einu.“9 Allt frá tíma Adams, um aldir, til okkar núverandi spámanns, Thomas Spencer Monson, hefur Drottinn talað til sinna tilskipuðu fulltrúa. Þeir sem kjósa að hlusta á orð Drottins, eins og spámenn hans færa okkur þau, munu finna öryggi og frið.

Í Mormónsbók eru mörg dæmi um mikilvægi þess að fylgja hinni spámannlegu leiðsögn og fylgja spámanninum, til að mynda lexían sem læra má af sýn Lehís um tré lífsins, í 1. Nefí kapítula 8. Aldrei áður hefur hin rúmmikla bygging verið yfirfullari en á okkar tíma eða hrópin sem frá hennar opnu gluggum verið misráðnari, háðskari og afvegaleiddari. Í þessum ritningarversum er sagt frá tveimur hópum manna og viðbrögðum þeirra við hrópunum frá byggingunni.

Ljósmynd
Draumur Lehís

Við byrjum lesturinn í versi 26, þar sem ritað er:

„Og ég leit einnig í kringum mig og sá hinum megin fljótsins stóra og rúmmikla byggingu. …

Og hún var full af fólki, … sem … stóð og hæddi og benti á þá, sem komist höfðu að ávextinum og voru að neyta hans.

Og eftir að hafa bragðað á ávextinum blygðuðust þeir sín fyrir þeim, sem hæddu þá. Og þeim skrikaði fótur, þeir lentu á forboðnum vegum og glötuðust.“10

Í versi 33 er sagt frá öðrum sem brugðust öðruvísi við háðinu og spottinu sem barst frá byggingunni. Spámaðurinn Lehí útskýrði að þeir sem voru í byggingunni hefðu „[bent á sig] með fyrirlitningu sem og á þá, sem einnig neyttu af ávextinum. En við gáfum þeim engan gaum.“11

Eitt lykilatriði sem var ólíkt með þeim sem blygðuðust sín, skrikaði fótur og glötuðust og þeim sem ekki gáfu gaum að hæðninni sem barst frá byggingunni og fylgdu spámanninum, má finna í tveimur orðtökum. Hið fyrra er: „Eftir að hafa bragðað á.“ Hið síðara er: „Þá, sem … neyttu af.

Fyrri hópurinn sem kom að trénu, fylgdi spámanninum um tíma, en bragðaði einungis á ávextinum. Sá hópur hélt ekki áfram að neyta af ávextinum, því hann varð fyrir aðkasti frá byggingunni, svo hann hvarf frá spámanninum, lenti á forboðnum vegum og glataðist.

Síðari hópurinn neytti hins vegar stöðugt af ávextinum, öfugt við þá sem einungis brögðuðu á honum og villtust. Sá hópur leiddi hjá sér skarkala byggingarinnar, fylgdi spámanninum og naut af því öryggis og friðar. Skuldbindingu okkar við Drottin og þjóna hans má ekki taka léttilega. Ef við gerum það, verðum við berskjölduð gagnvart þeim sem reyna að ræna okkur friðinum. Þegar við hlustum á Drottin fyrir munn tilskipaðra þjóna hans, þá stöndum við óhagganleg á helgum stað.

Óvinurinn býður falslausnir, sem virðast ganga upp, en í raun verður lengra í þann frið sem við sækjumst eftir. Hann býður hyllingar sem virðst raunverulegar og öruggar, en sem að lokum munu hrynja, líkt og hin rúmmikla bygging mun gera, og tortíma öllum sem leitað hafa friðar í henni.

Sannleik er að finna í einföldum barnafélagssöng: „Spámannlegt orðið. Boðorðin haldið. Það veitir öryggi, það veitir frið.12

Þriðja skrefið: „Gakk í hógværð anda míns.“

Hversu langt sem við höfum reikað af veginum, þá býður frelsarinn okkur að koma aftur og fylgja sér. Þetta boð, um að fylgja Jesú Kristi, er boð um að fylgja honum til Getsemane og frá Getsemane til Golgata og frá Golgata að grafarmunanum. Það er boð um að skilja og taka á móti hans dásamlegu friðþægingu, sem bæði er persónuleg og óendanleg. Það er boð um að iðrast, að nýta hans hreinsandi mátt og koma í hans kærleiksríku útréttu arma. Það er boð um að taka á móti friði.

Ljósmynd
Okkur er boðið að tala við hann.

Öll höfum við einhvern tíma upplifað sorgina og sársaukann sem fylgja synd og misgjörð, „því ef vér segjum: ‚Vér höfum ekki synd,‘ þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss.“13 En þó er það svo að „þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll,“ ef við hagnýtum okkur friðþægingu Jesú Krists og göngum með honum í einlægri iðrun.14 Þótt við höfum verið sliguð af sektarkennd, þá munum við finna frið.

Ljósmynd
Okkur er boðið að iðrast.

Alma yngri þurfti að standa frammi fyrir syndum sínum er engill Drottins vitjaði hans. Hann lýsti þeirri reynslu þannig:

„Sál mín var hrjáð [áhyggjufull] til hins ýtrasta og kvalin af öllum syndum mínum.

… Já, ég sá, að ég hafði risið gegn Guði mínum og hafði ekki haldið heilög boðorð hans.“15

Mitt í þessari þrekraun sinni og þrátt fyrir alvarleika synda hans, sagði hann samt:

„[Ég minntist þess einnig] að hafa heyrt föður minn spá fyrir fólkinu, að Jesús nokkur Kristur, sonur Guðs, mundi koma og friðþægja fyrir syndir heimsins.

… Ég [hrópaði] í hjarta mínu: Ó Jesús, þú sonur Guðs, vertu mér miskunnsamur.“16

„Og ég fékk ekki eftirgjöf synda minna fyrr en ég ákallaði Drottin Jesú Krist um miskunn. En sjá. Ég ákallaði hann og hlaut þá frið í sálu minni.17

Við, líkt og Alma, munum líka finna frið í sálum okkar, er við göngum með Jesú Kristi, iðrumst synda okkar og sækjumst eftir hans græðandi krafti í lífi okkar.

Sá friður sem við sækjumst eftir krefst meira en þrár. Hann krefst athafnar – að við lærum af honum, hlýðum á orð hans og fylgjum honum. Við getum ekki haft stjórn á öllu sem gerist umhverfis okkur, en við getum stjórnað því hvernig við tileinkum okkur þá fyrirmynd friðar sem Drottinn hefur séð okkur fyrir – sem auðveldar okkur að hugsa oft um Jesú.

Ljósmynd
Við getum tileinkað okkur fyrirmynd frelsarans.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er „vegurinn, sannleikurinn og lífið“18 og að við getum aðeins hlotið frið í þessu lífi með honum og eilíft líf í komandi heimi. Í nafni Jesú Krists, amen.