2010–2019
Þið eruð ekki einir í verkinu
Október 2015


Þið eruð ekki einir í verkinu

Þegar þið haldið áfram að þjóna í prestdæminu, munuð þið sjá að Drottinn vinnur verkið með ykkur.

Kæru bræður, við erum þakklátir fyrir að Drottinn hefur kallað öldung Ronald A. Rasband, öldung Gary E. Stevenson og öldung Dale G. Renlund, sem postula Drottins Jesú Krists. Við styðjum þá í hjarta, bæn og trú.

Við erum kunnug mikilli hæfni þeirra. Þeir munu þó þarfnast fullvissu í köllun sinni, líkt og við allir, um að Drottinn sé með þeim í verki sínu. Hinn ný kallaði djákni þarfnast þeirrar fullvissu, sem og hinn reyndasti háprestur, í nýrri köllun.

Sú fullvissa hlýst er okkur verðu ljóst að hann hefur kallað okkur með þjónum sínum. Ég ætla að hvetja og hjálpa ykkur að skilja að þegar þið gerið ykkar hlut, þá mun Drottinn bæta mætti sínum við verk ykkar.

Sérhver köllun sem við hljótum í ríki Drottins krefst meira en mannlegrar dómgreindar og mannlegs máttar. Við þörfnumst hjálpar Drottins í slíkum köllunum, sem við munum hljóta. Hinum nýja djákna mun lærast sú staðreynd og margt annað í áranna rás.

Einn barnasonur minn er hér í kvöld á sínum fyrsta prestdæmisfundi. Hann var vígður til djákna fyrir sex dögum. Hann kann að vænta þess að fyrsta prestdæmisskylda hans næsta sunnudag verði að bera út sakramentið. Ég bið þess að hann muni sjá þá stund í sönnu ljósi.

Hann kann að telja verk sitt fyrir Drottin sé að bera út sakramentið til þeirra sem á samkomunni eru. Tilgangur Drottins er þó ekki einungis sá að fá fólkið til að neyta brauðs og vatns. Sakrementið er til að hjálpa því að halda sáttmála sína, sem gerir því kleift að vera á vegi eilífs lífs. Til þess að það sé hægt, þá þarf Drottinn að veita þeim sem djákninn færir sakramentið andlega reynslu.

Ég hef séð slíkt gerast á umönnunarheimili, er djákni nokkur beygði sig fram til að rétta hvíthærðri konu bakkann. Hún horfði á brauðið líkt og það væri fjársjóður. Ég gleymi aldrei brosi hennar, er hún meðtók sakramentið og treygði sig síðan upp til að klappa á koll djáknans og segja upphátt: „Ó, þakka þér fyrir!“

Djákninn var einfaldlega að framfylgja prestdæmisskyldum sínum. Drottin margfaldaði verk djáknans. Það sýndi sig þegar konan minntist frelsarans, með því að tjá einlægar þakkir fyrir þjónustu djáknans. Hún var fullviss um að sökum þess að hann færði henni sakramentið, þá gæti hún haft andann með sér. Hún var ekki einsömul dag þennan á öldrunarheimilinu. Djákninn var heldur ekki einsamall í sinni látlausu þjónustu.

Ekki er víst að ungur kennari í Aronsprestdæminu skynji að hann sé fulltrúi Drottins í verki hans, þegar hann fer til að kenna fjölskyldu. Ég man enn eftir einföldum vitnisburði ungs heimiliskennara, sem koma á heimili okkar. Andinn staðfesti mér og fjölskyldu minni það sem hann sagði. Ekki er víst að hann muni eftir þessum degi, en það geri ég.

Drottinn mun margfalda verk ungs manns ennfrekar þegar hann er kallaður til prests. Fyrsta skírnin sem hann framkvæmir gæti verið að skíra ungan einstakling sem hann ekki þekkir. Hann kann að hafa áhyggjur af því að orða bænina rétt eða framkvæma helgiathöfnina eins og vera ber.

Drottinn, sem hann þjónar, mun efla hann í köllun hans. Einstaklingurinn sem hann skírir hefur valið að ferðast eftir vegi eilífs lífs. Drottinn mun gera sinn stærri þátt. Hann gerði það fyrir mig þegar drengurin sem ég skírði, sagði í eyra mér með tár á kinn: „Ég er hreinn. Ég er hreinn.“

Þegar þið haldið áfram að þjóna í prestdæminu, munuð þið sjá að Drottinn vinnur verkið með ykkur. Það lærði ég fyrir mörgum árum, er ég kynntist öldungasveitarforseta á stikuráðstefnu. Á ráðstefnunni voru yfir 40 nöfn karlmanna kynnt, sem átti að veita Melkísedeksprestdæmið.

Stikuforsetinn snéri sér að mér og hvíslaði: „Allir þessir menn voru lítt virkir tilvonandi öldungar.“ Ég varð undrandi og spurði forsetann hvað hann hefði gert til að koma þeim til bjargar.

Hann bennti á ungan mann aftarlega í kapellunni. Hann sagði: „Þarna er hann. Flestir þessara manna hafa komið aftur vegna þessa öldungasveitarforseta.“ Hann sat aftast, í hversdagsfötum, með útrétta krosslagða fætur, í slitnum skóm.

Ég bað stikuforsetann að kynna okkur eftir samkomuna. Þegar ég hitti unga manninn, sagðist ég undrast yfir því sem hann hefði gert og spurði hvernig hann hefði farið að. Hann yppti öxlum. Hann vildi augljóslega ekki eigna sér heiðurinn.

Hann bætti svo ljúflega við: „Ég þekki alla lítt virka náunga í þessari borg. Flestir eiga þeir pallbíl. Sjálfur á ég einn slíkan. Ég þvæ pallbílinn minn á sama stað og þeir. Smám saman myndast vinátta á milli okkar.

Ég veiti svo athygli þegar eitthvað bjátar á í lífi þeirra. Það gerist alltaf. Þeir segja mér frá því. Ég hlusta án þess að dæma. Þegar þeir síðan segja: ‚Ég er ekki sáttur við lífið. Það hlýtur að vera til eitthvað annað og betra en þetta,‘ Ég segi þeim hvað vantar og hvar það sé að finna. Stundum trúa þeir mér, og ef svo er, þá kem ég með þá hingað.“

Sjáið þið af hverju hann var hógvær. Það er vegna þess að hann vissi að hann hefði gert sinn smávægilega hlut og Drottinn sæi svo um það sem á vantaði. Það var Drottinn sem snerti hjörtu þessara manna í raunum þeirra. Það var Drottinn sem hafði veitt þeim þá tilfinningu að leita einhvers betra í lífinu og vonina um að þeir finndu það.

Ungi maðurinn, sem var þjónn Drottins, líkt og þið, trúði einfaldlega, að ef hann gerði sinn smávægilega hlut, mundi Drottinn hjálpa þessum mönnum á veginn heim og að öðlast þá hamingju sem hann einn getur veitt. Þessi maður vissi líka að Drottinn hefði kallað hann sem öldungasveitarforseta, því hann uppfyllti sinn hlut.

Þeir tímar koma í þjónustu ykkar að þið náið ekki sama undraverða áþreifanlega árangri og þessi ungi öldungarsveitarforseti gerði. Þá þurfið þið að vera fullvissir um að Drottinn hafi kallað ykkur með sínum réttmætu þjónum, vitandi að þið gerðuð ykkar hlut í verkinu. Að hafa trú á köllun Drottins með þjónum hans, skipti sköpum í trúboðsþjónustu langaafa míns, Henrys Eyring.

Hann skírðist 11. mars 1855, í St. Louis, Missouri. Erastus Snow vígði hann til embættis prests nokkru eftir það. Forseti St. Louis stikunnar, John H. Hart, kallaði hann til að þjóna í trúboði meðal Cherokee þjóðarinnar, 6. október. Hann var vígður sem öldungur 11. október. Hann lagði af stað á hestbaki í Cherokee trúboðið 24. október. Hann var 20 ára gamall og hafði snúist til trúar aðeins fyrir sex mánuðum.

Ef einhver prestdæmishafi hefur haft gilda ástæðu til að finnast hann vera óhæfur og reynslulaus, þá var það Henry Eyring. Eina ástæðan sem veitti honum hugrekki til að fara, var sú að hann vissi í hjarta sínu að Guð hefði kallað hann með sínum réttmætu þjónum. Það var uppspretta hugrekkis hans. Það verður að vera uppspretta hugrekkis okkar til að standast, hver sem pretdæmisköllun okkar er.

Eftir að öldungur Eyring hafði þjónað í þrjú erfið ár, og eftir lát trúboðsforsetans, var hann tilnefndur og studdur sem forseti á fundi sem haldinn var 6. október 1858. Hann var hissa og undrandi, líkt og nýr djákni væri líka. Hann skrifaði: „Það kom mér á óvart að vera kallaður í þetta ábyrgðarmikla embætti, en þar sem það var vilji bræðranna, þá tók ég fúslega á móti kölluninni, en fann um leið til mikils vanmáttar og reynsluleysis.“1

Eyring, sem nú var forseti, ferðaðist til Cherokee, Creek og Choctaw þjóðarbrotanna árið 1859. Fyrir tilverknað hans, þá „leiddi“ Drottinn, líkt og Henry orðaði það, „fjölmarga í kirkjuna.“ Hann skipulagði tvær greinar en benti á að „afar fáar væru þó við lýði.“2

Ári síðar stóð Henry frammi fyrir þeim erfiðleikum að stjórnmálaleiðtogar meðal fólksins sem hann þjónaði, settu bann á að trúboðar Síðari daga heilagra fengju að vinna þar verki sitt. Þegar hann íhugaði hvað til bragðs skildi taka, þá minntist hann fyrirmæla fyrrverandi trúboðsforeta, sem fólu í sér að hann ætti að framlengja trúboði sínu til ársins 1859.3

Henry skrifaði Brigham Young forseta, í október sama ár, og bað um leiðsögn, en fékk ekkert svarbréf. Henry sagði: „Það sem ég heyrði ekkert frá forsætisráði kirkjunnar, þá ákallaði ég Drottin í bæn og bað hann að opinbera mér vilja sinn um það hvort ég ætti að dvelja lengur eða fara til Síonar.“

Hann hélt áfram: Mér barst eftirfarandi draumur sem svar við bæn minni. Mig dreymdi að ég kæmi til [Salt Lake] City og færi þegar í stað á skrifstofu [Brighams] Young forseta, þar sem ég hitti hann. Ég sagði við hann: ‚Young [forseti], ég hef farið frá trúboði mínu, að eigin ráði, en sé það röng ákvörðun, fer ég fúslega til baka og lýk trúboði mínu.‘ [Í draumnum svaraði spámaðurinn]: ‚Þú hefur dvalið þar nægilega lengi, þetta er í lagi.‘“

Henry skrifaði í dagbókina sína: „Þar sem ég hafði áður upplifað drauma sem rættust bókstaflega, þá trúði ég að þessi draumur gerði það líka og tók því þegar í stað að búa mig undir förina.“

Hann kom til Salt Lake City 29. ágúst 1860, eftir að hafa gengið mestan hluta leiðarinnar. Tveimur dögum síðar fór hann á skrifstofu Brighams Young forseta.

Henry lýsti þeirri reynslu þannig: „[Ég] bað um áheyrn Youngs [forseta], sem tók afar ljúflega á móti [mér]. Ég sagði við hann: ‚Young [forseti], ég kem hingað án þess að sent hafi verið eftir mér, ef það reynist rangt, þá fer ég fúslega til baka og lýk trúboði mínu.‘ [Brigham Young] svaraði: ‚Þetta er í lagi. Við höfum verið grenslast fyrir um þig.‘“

Henry lýsti gleði sinni og sagði: „Þannig rættist draumur minn bókstaflega.“4

Gleði hans safaði af þeirri staðfestingu að Drottinn hafði starfað með og vakað yfir honum. Honum lærðist nokkuð sem á við um okkur alla – að þjónar Drottins eru innblásnir til að þekkja vilja Drottins. Henry Eyring fékk það staðfest, sem ég veit líka: Að spámaðurinn, sem forseti prestdæmisins, er innblásinn af Guði til að vaka yfir og ala önn fyrir þjónum Drottins og kalla þá.

Hver sem köllun ykkar er í prestdæminu, kann ykkur stundum að hafa fundist himneskur faðir ekki vita af ykkur. Þið getið beðist fyrir til að þekkja vilja hans og síðan af einlægri þrá gert allt sem hann fer fram á og þá mun svarið berast ykkur.

Himneskur faðir mun láta ykkur finna að hann þekkir ykkur, að hann metur þjónustu ykkar og að þið séuð verðugir hinna þráðu viðurkenningarorða: „Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.“5

Það er bæn mín að sérhver pretdæmishafi muni í trú leggja sig fram við að bjarga hverri þeirri sál sem hann ber ábyrgð á. Guð mun bæta mætti sínum við verk þjóna sinna. Hjörtu munu snert til að segja skilið við sorgina og velja fagnaðarerindið og það sem leiðir til hamingju.

Það er líka bæn mín að sérhver prestdæmishafi muni finna umhyggju og kærleika himnesks föður, frelsarans og spámanns Guðs, í köllun hans í prestdæminu.

Ég ber mitt sérstaka vitni um að við erum í þjónustu hins upprisna Drottins Jesú Krists. Ég ber vitni um að hann hefur kallað okkur í þjónustu sína og þekkir hæfni okkar og þá hjálp sem við þörfnumst. Hann mun blessa verk okkar meira en við fáum ímyndað okkur, ef við leggjum okkur algjörlega fram í þjónustu hans. Ég ber vitni um að spámaður Guðs, sem er forseti prestdæmisins á jörðinni, er innblásinn af Guði.

Ég er þakklátur fyrir gott fordæmi hinna trúföstu prestdæmishafa hvarvetna. Himneskur faðir og frelsarinn eru þakklátur fyrir að þið gerið ykkar hlut. Þeir þekkja ykkur, vaka yfir ykkur og elska ykkur. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Bréf Henrys Eyring til Brighams Young, 7. okt. 1858, skjalasafn Brighams Young, Sögusafn kirkjunnar Salt Lake City.

  2. Greinargerð Henrys Eyring til Sögusafns kirkjunnar, ágúst 1860, greinargerð trúboða, Skjalasafn kirkjunnar, Salt Lake City.

  3. Bréf Henrys Eyring til Brighams Young, 9. okt. 1859, skjalasafn Brighams Young, Sögusafn kirkjunnar, Salt Lake City.

  4. Endurminningar Henrys Eyring, 1896, handrit, 27–28, Sögusafn kirkjunnar, Salt Lake City.

  5. Matt 25:23.