2010–2019
Hvers er mér enn vant?
Október 2015


Hvers er mér enn vant?

Ef við erum auðmjúk og lærdómsfús þá mun heilagur andi hvetja okkur til að bæta okkur og leiða okkur heim, en við verðum að leita leiðsagnar Drottins á leiðinni.

Þegar ég var ungur og einhleypur tók ég að kynna mér kirkjuna. Til að byrja með laðaðist ég að fagnaðarerindinu í gegnum fordæmi vina minna sem voru Síðari daga heilagir, en að lokum heillaðist ég af hinni einstöku kenningu. Ég varð hreinlega forviða þegar ég lærði það að trúfastir, menn og konur, gætu haldið áfram að taka framförum og að þau gætu að lokum orðið eins og okkar himnesku foreldrar. Mér fannst hugmyndin frábær, hún hljómaði rétt í huga mér.

Skömmu eftir skírn mína, var ég að lesa fjallræðuna, þegar ég gerði mér grein fyrir því að Jesús kenndi þennan sama sannleika um eilífa framþróun í Biblíunni. Hann sagði, „Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.“1

Ég hef nú verið meðlimur kirkjunnar í rúmlega 40 ár, og hvenær sem ég les þetta ritningavers þá minnist ég tilgangs okkar hér á jörðu. Við komum til að læra og bæta okkur, þar til við verðum helguð eða fullkomnuð í Kristi.

Ferðalag lærisveinsins er ekki auðvelt. Það er kallað „ferill stöðugra framfara.“2 Er við ferðumst á hinum beina og krappa vegi þá mun andinn stöðugt skora á okkur að verða betri og að komast hærra Heilagur andi er fullkominn ferðafélagi. Ef við erum auðmjúk og lærdómsfús, þá mun hann taka í hönd okkar og leiða okkur heim.

Við verðum þó að biðja Drottin um leiðsögn á leið okkar. Við verðum að spyrja erfiðra spurninga eins og „Hverju þarf ég að breyta?“ „Hvernig get ég bætt mig?“ „Hvaða veikleika þarf að styrkja?“

Íhugum sögu Nýja testamentisins um ríka unga höfðingjann. Hann var réttlátur ungur maður sem þegar hélt boðorðin tíu, en hann vildi verða betri. Markmið hans var eilíft líf.

Þegar hann hitti frelsarann, spurði hann „Hvers er mér enn vant?“3

Jesús svaraði honum samstundis og gaf honum ráð sem var sérstaklega ætlað hinum ríka unga manni. „Jesús sagði við hann: Ef þú vilt vera fullkominn, skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum ...Kom síðan, og fylg mér.“4

Ungi maðurinn varð forviða, hann hafði aldrei hugleitt slíka fórn. Hann var nægilega auðmjúkur til að spyrja Drottin, en ekki nægilega til að fylgja hinu guðlega ráði sem honum var gefið. Við verðum að vera tilbúin að bregðast við þegar við fáum svar.

Harold B. Lee kenndi, „Ef við viljum ná fullkomnun þá verður hvert og eitt okkar að spyrja sjálfan sig þessarar spurningar: ‚Hvers er mér enn vant?‘“5

Ég þekkti trúfasta móður sem spurði Drottin í auðmýkt: „Hvað hindrar mig í framför minni?“ Í hennar tilfelli koma svarið frá andanum samstundis: „Hættu að kvarta.“ Svarið kom henni á óvart. Hún hafði aldrei litið á sjálfa sig sem nöldursegg. Svarið sem kom frá heilögum anda, var hins vegar mjög skýrt. Næstu daga varð hún meðvitaðri um þann ávana að kvarta. Þakklát fyrir hvatninguna til að bæta sig, ákvað hún að telja fremur blessanir sínar en þrautir. Innan nokkurra daga fann hún ljúfa velþóknun andans.

Auðmjúkur ungur maður, sem átti erfitt með að finna réttu stúlkuna, leitaði liðsinnis Drottins: „Hvað stendur í vegi þess að ég geti verið sá rétti?“ spurði hann. Svarið sem kom í hug hans og hjarta var: „Bættu málfarið þitt.“ Þá gerði hann sér grein fyrir að nokkur gróf orðtök voru orðin fastur liður af orðaforða hans og hann ákvað að breyta því.

Einhleyp systir spurði hugrökk: „Hvað þarf ég að bæta?“ og andinn hvíslaði að henni: „Ekki grípa fram í þegar fólk er að tala.“ Heilagur andi veitir sannlega persónuleg ráð. Hann er algerlega hreinskilinn félagi og mun segja okkur hluti sem aðrir vita ekki eða hafa hugrekki til að segja okkur.

Fyrrverandi trúboði var áhyggjufullur af þéttskipaðri dagskrá. Hann þurfti tíma fyrir vinnu, nám, fjölskyldu og kirkjuköllun. Hann leitaði ráða hjá Drottni: „Hvernig get ég fundið frið með allt það sem ég þarf að gera?“ Svarið var ekki það sem hann átti von á. Hann fékk á tilfinninguna að leggja sig betur fram við að halda hvíldardaginn heilagan. Hann ákvað að helga sig þjónustu við Drottin á sunnudögum, að leggja námsbækurnar til hliðar þann dag og þess í stað að læra fagnaðarerindið. Þessi litla breyting færði honum þann frið og það jafnvægi sem hann leitaði að.

Fyrir mörgum árum las ég sögu í kirkjublaði, um stúlku sem var farin að heiman og stundaði háskólanám. Hún hafði dregist aftur úr í náminu, félagslífið var ekki upp á marga fiska og hún var yfirhöfuð óhamingjusöm. Loks, dag einn, kraup hún niður og sárbað: „Hvað get ég gert til að bæta líf mitt?“ Heilagur andi hvíslaði að henni: „Stattu á fætur og taktu til í herberginu þínu.“ Þessi hvatning kom henni algerlega á óvart, en var henni góð byrjun. Eftir að hafa gefið sér tíma til að skipuleggja og koma reglu á hlutina þá fann hún andann fylla hjartað og herbergið.

Heilagur andi segir okkur ekki að bæta allt í einu. Ef hann gerði svo þá myndum við fyllast vonleysi og gefast upp. Andinn vinnur með okkur á okkar eigin hraða, eitt skref í einu, eða eins og Drottinn kenndi eitt sinn: „Orð á orð ofan og setning á setning ofan … og blessaðir eru þeir, sem hlusta á setningar mínar … því að þeim, sem tekur á móti, mun ég meira gefa.“6 Ef heilagur andi hefði t.d. hvatt þig til að segja oftar „takk fyrir“ og þú brygðist vel við þeirri hvatningu, þá gæti honum fundist þú tilbúinn til að takast á við aðeins stærri áskorun, eins og að læra að segja: „Fyrirgefðu, þetta var mér að kenna.“

Ljósmynd
Fjölskylda meðtekur sakramentið

Þegar við meðtökum sakramentið er tilvalið að spyrja: „Hvers er mér enn vant?“ Páll postuli kenndi að nú væri rétti tíminn til að kanna okkur sjálf.7 Í slíkri lotningarfullri umgjörð, er hugur okkar beinist til himna, þá getur Drottinn sagt okkur ljúflega, hvað við þurfum að takast á við næst.

Eins og þið þá hef ég meðtekið mörg skilaboð frá andanum í gegnum árin, sem hafa sýnt mér hvernig ég gæti bætt mig. Leyfið mér að deila með ykkur nokkrum persónulegum skilaboðum sem ég tók alvarlega. Þessi skilaboð hafa, meðal annars, verið:

  • Ekki hækka röddina.

  • Vertu skipulagður, búðu til lista yfir það sem þú þarft að gera.

  • Hugsaðu betur um líkama þinn með því að borða meira af ávöxtum og grænmeti.

  • Farðu oftar í musterið.

  • Gefðu þér tíma til að hugleiða áður en þú flytur bænir.

  • Leitaðu ráða hjá eiginkonu þinni.

  • Vertu þolinmóður í umferðinni, ekki fara yfir löglegan hraða. (ég er enn að vinna í þessu.)

Friðþæging frelsarans er það sem gerir fullkomnun og helgun mögulega. Við gætum aldrei gert þetta ein, en náð Guðs er nægileg til að liðsinna okkur. Líkt og öldungur David A. Bednar sagði eitt sinn: „Flest skiljum við vel að friðþægingin er fyrir syndara. Ég er þó ekki jafn viss um að við skiljum og áttum okkur á að friðþægingin er líka fyrir hina heilögu, fyrir góða karla og konur, sem eru hlýðin, verðug og samviskusöm og reyna stöðugt að bæta sig og þjóna af trúmennsku.“8

Ljósmynd
Biðjandi kona

Mig langar til að leggja til að hvert og eitt okkar taki þátt í andlegri æfingu einhvern tíma fljótlega, kannski í kvöld við kvöldbænirnar ykkar. Spyrjið Drottin auðmjúklega, eftirfarandi spurningar: „Hvað hindrar mig í framför minni? “ Með öðrum orðum: „Hvers er mér enn vant?“ Bíðið síðan hljóðlega eftir svari. Ef þið eruð einlæg þá mun svarið koma skýrt. Það verður opinberun sem aðeins er ykkur ætluð.

Kannski mun andinn segja ykkur að þið þurfið að fyrirgefa einhverjum. Kannski fáið þið þau skilaboð að þið þurfið að velja betur þær kvikmyndir sem þið horfið á eða tónlist sem þið hlustið á. Þið gætuð fundið hvatningu til að vera heiðalegri í þeim viðskiptum sem þið eigið í eða örlátari í föstufórnum ykkar. Möguleikarnir eru óendanlegir.

Andinn getur sýnt okkur veikleika okkar, en hann getur líka sýnt okkur styrkleika okkar. Stundum þurfum við að spyrja hvað við erum að gera rétt svo að Drottinn geti lyft okkur og hvatt okkur til að halda áfram. Þegar við lesum patríarkablessun okkar, erum við minnt á að himneskur faðir okkar þekkir okkar guðlegu möguleika. Hann gleðst með okkur í hvert sinn sem við tökum skref fram á við. Hvað hann varðar, þá er stefnan sem við tökum mikilvægari en hraðinn.

Verið ákveðin, bræður og systur, og missið aldrei kjarkinn. Við verðum að fara handan grafa áður en við fáum í raun náð fullkomnun, en hér í jarðlífinu getum við lagt grunninn að henni. „Okkur ber skylda til að vera betri í dag en í gær og betri á morgun en í dag.“9

Ef andlegur þroski er ekki forgangsatriði í lífi okkar, ef við erum ekki stöðugt að taka framförum, þá munum við missa af mikilvægum upplifunum sem Guð þráir að veita okkur.

Fyrir mörgum árum las ég þessi orð Spencer W. Kimball, forseta sem hafa haft varanleg áhrif á mig. Hann sagði: „Mér hefur lærst að Drottinn mun veita hinu bænheita hjarta, sem þráir réttlæti, lætur af syndum og hlýðir boðorðum Guðs, stöðugt meira ljós, allt þar til hin himneska hula fellur niður ... Sá sem býr að slíku réttlæti, á það ómetanlega loforð að dag einn muni hann sjá andlit Drottins og vita að hann er.“10

Það er bæn mín að við fáum einn daginn upplifað þá ómetanlegu reynslu, er við látum heilagan anda leiða okkur heim. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Matt 5:48.

  2. Neal A. Maxwell, “Testifying of the Great and Glorious Atonement,” Ensign, okt. 2001; Liahona, apr. 2002.

  3. Matt 19:20.

  4. Matt 19:21.

  5. Teachings of Presidents of the Church: Harold B. Lee [2001], 197).

  6. 2 Ne 28:30.

  7. Sjá 1 Kor 11:28.

  8. David A. Bednar, “The Atonement and the Journey of Mortality,” Ensign, apr. 2012; Liahona, apr. 2012.

  9. Joseph Fielding Smith, Doctrines of Salvation, samantekt Bruce R. McConkie, 3 bindi. (1954–56), 2:18.

  10. Spencer W. Kimball, “Give the Lord Your Loyalty,” Ensign, mar. 1980; Tambuli, feb. 1981.