2010–2019
Reynd og freistað – en liðsinnt
Október 2015


Reynd og freistað – en liðsinnt

Við getum, sem börn föður okkar á himnum, hjálpað hvert öðru í raunum okkar og freistingum.

Við erum reynd og okkur er freistað á lífsskeiðinu. Við fáum einnig tækifæri til að iðka valfrelsi og hjálpa hvert öðru. Þessi sannleikur er hluti af dásamlegri og fullkominni áætlun okkar himneska föður.

John Taylor forseti kenndi: „Ég heyrði spámannin segja, er hann talaði til hinna Tólf við eitt tækifæri: ‚Þið munuð verða fyrir margskonar þrengingum á vegi ykkar. Og það er ykkur jafn nauðsynlegt að verða reyndir og það var fyrir Abraham og aðra menn Guðs, og Guð (sagði hann) mun reyna ykkur, beina sjónum sínum að ykkur og umbreyta hjarta ykkar.‘ “1

Raunir og freistingar eru allt í kring þegar við náum ábyrgðaraldrinum. Stundum geta þær orðið þungar að bera en þær veita okkur einnig styrk og vöxt er við náum á árangursfullan hátt að sigra þær.

Sem betur fer er okkur ekki ætlað að bera þessar byrðar einsömul. Alma kenndi: „Þið þráið að komast í hjörð Guðs og kallast hans lýður og eruð fús til að bera hvers annars byrðar svo að þær verði léttar.“2 Þessi orð benda til þess að ábyrgð okkar sé að hjálpa hvert öðru. Sú ábyrgð getur falist í kirkjuköllun, verkefni, vinskap eða verið hluti af okkar himnesku ábyrgð sem foreldrar, makar eða fjölskyldumeðlimir – eða hreinlega af því að vera hluti af fjölskyldu Guðs.

Ég mun fjalla um fjórar leiðir þar sem byrðum okkar er létt ef við hjálpum hvert öðru.

1. Frelsarinn sagði: „Neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær.“3 Sem dæmi þá er okkur boðið að sækja musterið heim reglulega, eins og aðstæður leyfa. Það krefst fórnar á tíma og auðlindum að fara í musterið, sér í lagi hjá þeim sem þurfa að ferðast langar vegalengdir. Þrátt fyrir það ætti að líta á þessa fórn sem hluta af fyrstu mílunni.

Við hefjumst handa á auka mílunni þegar við skiljum hugtökin „finna, taka og kenna,“4 þegar við leitum að og undirbúum nöfn áa okkar fyrir helgiathafnir musterisins, þegar við aðstoðum við skráningu, þegar við störfum í musterinu og þegar við leitum leiða til að hjálpa öðrum að hljóta innihaldsríka reynslu í musterinu.

Þegar ég þjónaði sem svæðishafi Sjötíu, þá var ein stika í samræmingarráðinu, sem tók þátt í umfangsmikilli musterisferð. Musterið sem meðlimirnir fóru í var lítið og því miður voru nokkrir meðlimir sem ekki gátu komist inn í musterið, þrátt fyrir 12 klukkustunda ferðalag, vegna þess að musterið bar ekki slíkan fjölda á einum degi.

Ég heimsótti þessa stiku, nokkrum dögum eftir ferðalagið og spurði forsetann hvort ég gæti rætt við nokkra af þeim meðlimum sem gátu ekki farið inn í musterið þennan dag. Einn af bræðrunum sem ég hitti sagði mér: „Öldungur, ekki hafa áhyggjur. Ég var við hús Drottins. Ég sat á bekk í garðinum og hugleiddi helgiathafnirnar. Síðar gafst mér færi á að fara inn í musterið, en ég leyfði öðrum bróður, sem var að fara í musterið í fyrsta sinn til að innsiglast eiginkonu sinni, að fara þangað í minn stað. Síðar þennan sama dag gátu þau farið í tvær musterissetur. Drottinn þekkir mig og hann hefur blessað mig. Það er allt í lagi með okkur.“

2. Brosið. Þessi litla gjörð getur hjálpað þeim sem eiga erfitt eða eru byrðum hlaðnir. Á aðalfundi prestdæmisins, á síðustu aðalráðstefnu í apríl, sat ég á pallinum við hlið fimm nýkallaðra aðalvaldhafa. Við sátum þar sem systurnar í forsætisráðum aðildarfélaganna sitja núna. Ég var mjög kvíðinn og fann til vanmáttar yfir minni nýju köllun.

Þegar við sungum millisálminn, fann ég sterkt fyrir því að einhver væri að horfa á mig. Ég hugsaði með mér: „Það eru rúmlega 20.000 manns í þessari byggingu og flestir horfa í þessa átt. Auðvitað er einhver að horfa á mig.“

Á meðan ég söng fann ég aftur þessa sterku tilfinningu að einhver væri að horfa á mig. Ég horfði á röðina þar sem postularnir tólf sátu og sá að Russell M. Nelson forseti hafði snúið sér algjörlega við í sæti sínu og horfði á þangað sem við sátum. Augnráð okkar mættust og hann brosti breitt til mín. Brosið færði hjarta mínu frið.

Eftir upprisu sína heimsótti Jesús Kristur aðra sauði sína. Hann kallaði og vígði tólf postula og með því valdsumboði þjónuðu þeir fólkinu. Sjálfur Drottinn Jesús Kristur stóð meðal þeirra. Drottinn bauð þeim að krjúpa og biðja. Ég veit ekki hvort þessum ný kölluðu og vígðu tólf postulum fannst köllun sín yfirþyrmandi, en ritningin segir: „Og svo bar við, að Jesús blessaði þá, er þeir báðu til hans. Og hann brosti við þeim, og ljóminn af ásjónu hans geislaði yfir þá.“5 Eitt bros, á síðustu aðalráðstefnu, létti byrðar mínar á skjótan og óvenjulegan hátt.

3. Tjá öðrum samúð. Vinsamlega notið kraft ykkar í þágu barna Guðs, ef þið eruð prestdæmishafar, með því að veita þeim blessanir. Tjáið orð hughreystingar og huggunar til fólks sem þjáist eða er í þrengingum.

4. Hornsteinninn í áætlun Guðs er friðþæging Drottins Jesú Krists. Við ættum, að minnsta kosti einu sinni í viku, að ígrunda eins og Josep F. Smith forseti gerði, um „þá miklu og undursamlegu elsku föðurins og sonarins sem staðfest var með komu lausnarans í heiminn.“6 Að bjóða öðrum í kirkju og meðtaka sakramentið verðuglega, mun gefa fleiri börnum himnesks föðurs kost á að íhuga friðþæginguna. Við getum iðrast séum við ekki verðug. Munið að sonur hins hæsta sté neðar öllu og tók á sig brot okkar, syndir, veikindi, þjáningar, hörmungar og einmanaleika. Ritningin kennir um Krist: „[Hann], sté til upphæða og sté einnig neðar öllu, og skynjaði þannig alla hluti.“7

Engu skiptir hver barátta okkar er – hvort sem það er sjúkdómur, viðvarandi einmanaleiki eða stöðug áreitni freistinga eða árauna andstæðingsins – góði hirðirinn er til staðar. Hann kallar okkur með nafni og segir: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“8

Ég tek saman þessi fjögur atriði:

Fyrsta: Farið auka míluna.

Annað: Brosið endilega. Bros ykkar mun hjálpa öðrum.

Þriðja: Tjáið samúð.

Fjórða: Bjóðið fólki að koma í kirkju.

Ég ber vitni um frelsarann. Jesús er Kristur, sonur hins lifandi Guðs, og hann lifir. Ég veit að hann styður áætlun föðurins, af öllum sínum styrk og mætti. Ég veit að Thomas S. Monson forseti er lifandi spámaður. Hann hefur alla þá lykla sem þarf til að stjórna verki Guðs á jörðu af árangri. Ég veit að við getum, sem börn föður okkar á himnum, hjálpað hvert öðru í raunum okkar og freistingum. Í nafni Jesú Krists, amen.