2010–2019
Haldið boðorðin
Október 2015


Haldið boðorðin

Sá sem skapaði okkur og elskar okkur fullkomlega, veit hvernig við þurfum að haga lífi okkar til að hljóta mestu mögulegu hamingju.

Kæru bræður, hve dásamlegt það er að hitta ykkur aftur. Við höfum verið innblásin af þeim orðum sem töluð hafa verið. Ég bið þess að ég njóti líka handleiðslu í orðum mínum.

Boðskapur minn í kvöld er skýr og skorinorður. Hann er þessi: Haldið boðorðin.

Boðorð Guðs eru ekki gefin til að ergja okkur eða takmarka hamingju okkar. Þvert á móti er það sem réttara reynist. Sá sem skapaði okkur og elskar okkur fullkomlega, veit hvernig við þurfum að haga lífi okkar til að hljóta mestu mögulegu hamingju. Hann hefur séð okkur fyrir leiðsögn sem markar veg okkar til öryggis í gegnum þetta oft svo viðsjárverða jarðlíf. Munum við eftir orðum okkar kæra sálms: „Boðorðin haldið!“ Það veitir öryggi, það veitir frið.“1

Himneskur faðir elskar okkur svo heitt að hann segir: Þú skalt ekki ljúga; þú skalt ekki stela; þú skalt ekki drýgja hór; þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig; og svo framvegis.2 Við þekkjum boðorðin. Hann veit að þegar við höldum boðorðin, verður líf okkar hamingjuríkara, fyllra og einfaldara. Okkur mun reynast auðveldara að takast á við erfiðleika okkar og áskoranir og við munum hljóta fyrirheitnar blessanir hans. Þótt hann setji lögmál og boðorð, þá er okkur frjálst að velja hvort við lifum eftir eða höfnum þeim. Ákvarðanir okkar í þessu sambandi mun ákvarða örlög okkar.

Ég er viss um að allir viljum við að lokum komast í eilífa návist föður okkar á himnum og sonar hans, Jesú Krists. Þá er okkur nauðsynlegt að taka ákvarðanir alla okkar ævi sem gera það markmið að veruleika. Við vitum þó að óvinurinn hefur einsett sér að bregða fæti fyrir okkur. Hann og fylgjendur hans reyna stöðugt að draga úr réttlátum þrám okkar. Þeir eru alvarleg og stöðug ógn gegn okkar eilífu sáluhjálp, ef við keppum ekki stöðugt að því að ná markmiði okkar. Pétur postuli aðvarar okkur: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“3

Þótt ekkert æviskeið sé án freistinga, þá eruð þið, ungu menn, einkar berskjaldaðir, vegna ykkar viðkvæma aldurs. Unglingsárin eru oft ár óöryggis og vanmáttarkenndar, þegar reynt er að falla í hóp jafnaldra. Þið gætuð látið freistast til að lækka staðal ykkar til að fylgja hópnum og reyna að þóknast þeim sem þið viljið tengjast vináttuböndum. Verið sterkir og vökulir yfir öllu sem rænir ykkur blessunum eilífðar. Það sem þið ákveðið að gera hér og nú hefur ómælt gildi.

Í 1. Kórintubréfinu lesum við: „Margar tegundir tungumála, … [eru] til í heiminum.“4 Við erum umkringdir röddum sannfæringamáttar, blekkinga, niðurrifs, forfrömunar og ráðaleysis. Ég get bætt við að raddir þessar eru háværar. Ég hvet ykkur til að lækka niður í þessum röddum og stilla ykkur inn á áhrif hinnar kyrrlátu og lágværu rödd, sem leiðir ykkur í örugga höfn. Hafið hugfast, að sá sem vald hafði til þess, lagði hendur á höfuð ykkar, eftir að þið voruð skírðir, staðfesti ykkur sem meðlimi kirkjunnar og sagði: „Meðtak hinn heilaga anda.“5 Ljúkið upp hjarta ykkar, já, sál ykkar, svo þessi sérstaka rödd sem ber vitni um sannleikann megi þar hljóma. Líkt og spámaðurinn Jesaja sagði: „Eyru þín munu heyra … orð kölluð, … ‚Hér er vegurinn! Farið hann!‘“6 Megum við ætíð vera samstilltir, svo við fáum heyrt þessa huggunarríku, leiðandi rödd, sem mun vernda okkur.

Að hafna boðorðunum, hefur að mínu áliti innleitt það sem ég kalla plágu okkar tíma. Það eru plágur frjálslyndis, kláms, eiturlyfja, ósiðsemis og fóstureyðinga, svo eitthvað sé nefnt. Ritningarnar segja okkur að óvinurinn sé „höfundur alls [þessa].“7 Við vitum að hann er „faðir allra lyga, til að blekkja og blinda mennina.“8

Ég sárbæni ykkur að forðast allt sem getur rænt ykkur hamingju jarðlífsins og eilífu lífi í komandi heimi. Óvinurinn mun, með þessum blekkingum og lygum, leiða ykkur út á hála braut til að tortíma ykkur, ef þið leyfið það. Þið gætuð jafnvel látið lokkast út á þessa hálu braut og orðið ljóst að engin leið er til baka. Þið hafið heyrt boðskap óvinarins. Hann hrópar af kænsku: Að prófa einu sinni er í lagi; allir gera þetta; ekki vera gamaldags; þetta eru breyttir tímar; þetta skaðar engan; þetta er þitt líf, lifðu því. Óvinurinn þekkir okkur og freistingarnar sem okkur mun reyna erfitt að standast. Afar mikilvægt er að við sýnum stöðuga aðgát og forðumst að gefa gaum að slíkum lygum og freistingum.

Mikils hugrekkis verður krafist af okkur, er við keppum að því að vera trúfastir og sannir mitt í stöðugt auknum þrýstingi, lævísum áhrifum sem umlykja okkur, bjaga sannleikann, rífa niður hið góða og siðsama og reyna að innleiða heimspeki samda af mönnum. Ef boðorðin hefðu verið rituð af mönnum, þá hefðu þeir rétt á að breyta þeim með lagasetningu eða á hvern þann hátt sem þeir kysu. Boðorðin eru aftur á móti sett af Guði. Við getum hafnað þeim með því að nota eigið sjálfræði. Við getum aftur á móti ekki breytt þeim, frekar en við getum breytt afleiðingum þess að óhlýðnast og brjóta þau.

Gerum okkur ljóst að æðstu hamingju þessa lífs hljótum við með því að lifa eftir boðorðum Guðs og lögmálum hans! Ég ann orðunum í 17. versi í 32. kapítula Jesaja : „Ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu.“ Slíkur friður og fullvissa geta aðeins hlotist með réttlæti.

Við verðum að vera algjörlega staðfastir í samskiptum okkar við syndina. Við megum ekki telja okkur trú um að í lagi sé að brjóta boðorð Guðs „bara örlítið,“ því syndinn getur náð slíkum heljartökum á okkur, að afar sársaukafullt verður að losna undan áhrifum hennar. Sú ánetjun sem fylgir eiturlyfjum, áfengi, klámi og ósiðsemi, er raunveruleg og nær ómögulegt er að losna undan henni án mikillar baráttu og liðsinnis.

Ef einhver hefur hrasað á ferð sinni, heiti ég ykkur því að það er leið til baka. Sú leið nefnist iðrun. Þótt sá vegur sé erfiður, þá er eilíf sáluhjálp ykkar í húfi. Hvað annað getur verið verðugra viðfangsefni? Ég sárbæni ykkur, hér og nú, að taka iðrunarskrefin til fulls. Því fyrr sem þið gerið það, því fyrr getið þið upplifað friðinn, kyrrðina og fullvissuna sem Jesaja bendir á.

Fyrir stuttu hlustað ég á vitnisburð konu, sem fór af hinum örugga vegi, ásamt eiginmanni sínum. Þau brutu boðorðin og eyðilögðu næstum fjölskyldu sína við þá iðju. Þegar hvort um sig varð loks ljóst í gegnum þykka móðu ánetjunar hve vansæl þau voru orðin, og hve sárt þau höfðu sært ástvini sína, þá tók viðsnúningurinn við. Iðrunarferlið var hægfara og oft á tíðum sársaukafullt, en með hjálp prestdæmisleiðtoga, fjölskyldu og tryggra vina, tókst þeim að snúa blaðinu við.

Ég ætla að segja ykkur frá hluta af vitnisburði þessarar systur, um bata og mátt iðrunar: „Hvernig er hægt að snúa af þeirri braut að vera ein af hinum týndu sauðum, á valdi syndar, og njóta að nýju friðar og hamingju? Hvernig á það sér stað? Svarið er … sökum hins fullkomna fagnaðarerindis, fullkomins sonar, og friðþægingar hans fyrir mig. … Þar sem áður var myrkur skín nú ljós. Þar sem áður var örvænting og sársauki, ríkir nú gleði og von. Við höfum verið óendanlega blessuð vegna þeirrar umbreytingar sem aðeins er möguleg fyrir iðrun og friðþægingu Jesú Krists.“

Frelsari okkar dó til að veita ykkur og mér þá blessuðu gjöf. Þrátt fyrir þá staðreynd að vegurinn sé ógreiðfær, þá er loforðið raunverulegt. Drottinn sagði við þá sem iðrast:

„Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll.“9

„Og [ég mun] ekki framar minnast … þeirra.10

Allt lífið þurfum við að rækta sterkan vitnisburð, með því að læra ritningarnar, biðast fyrir og ígrunda sannleika fagnaðarerindis Jesú Krists. Þegar hann er vandlega rótfastur, mun vitnisburður okkar um fagnaðarerindið, um frelsarann og föður okkar á himnum, hafa áhrif á allt sem við gerum.

Ég ber vitni um að við erum allir ástkærir synir föður okkar á himnum, sendir til jarðar á þessum tíma í ákveðnum tilgangi, veitt prestdæmi Guðs, svo við getum þjónað öðrum og framkvæmt verk Guðs hér á jörðu. Okkur hefur verið boðið að haga lífi okkar á þann hátt að við séum verðugir þess að hafa prestdæmið.

Bræður mínir, haldið boðorðin! Okkar bíður dásamleg og dýrðleg umbun, ef við gerum það. Ég bið þess að sú blessun verði okkar, í nafni Jesú Krists, frelsara okkar og lausnara, amen.