2010–2019
Náðargjöfin
Apríl 2015


Náðargjöfin

Í dag og um eilífð er náð Guðs tiltæk öllum sem hafa sundurkramin hjörtu og sáriðrandi anda.

Á sunnudagsmorgun höldum við upp á þann dýrðlega atburð sem var mest beðið eftir í sögu heimsins.

Það er dagurinn sem breytti öllu.

Líf mitt breyttist þann dag.

Líf þitt breyttist.

Örlög allra barna Guðs breyttust.

Á þessum helga degi þá braut frelsari mannskynsins þá hlekki af sér sem synd og dauði höfðu haldið okkur föngnum í, og frelsaði okkur.

Vegna fórnar okkar ástkæra lausnara þá hefur dauðinn engan brodd og gröfin engan sigur.1 Satan hefur ekkert varanlegt vald og við erum „[endurfædd] … til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists.“2

Páll postuli hafði svo sannarlega rétt fyrir sér þegar hann sagði „Uppörvið því hver annan með þessum orðum.“3

Guðs náð

Við tölum oft um friðþægingarfórn frelsarans - og réttilega svo.

Í orðum Jakobs: „Hvers vegna skyldi ekki talað um friðþægingu Krists til að gjörkynnast honum“4 Er við „tölum um Krist, … fögnum í Kristi, …prédikum um Krist, [og] spáum um Krist“ við hvert tækifæri,5  þá megum við aldrei tapa þeirri tilfinningu lotningar og djúpstæðs þakklætis fyrir eilífa fórn sonar Guðs.

Friðþægingarfórn frelsarans má ekki verða hversdagsleg í kennslu okkar, samræðum eða í hjörtum okkar. Hún er helg og heilög því að það var vegna þessarar „[miklu lokafórnar]“ að Jesú Kristur færði „hjálpræði öllum þeim, sem á nafn hans trúa.“6

Ég furða mig á því að sonur Guðs myndi lúta svo lágt að bjarga okkur, eins ófullkomin, óhrein, gjörn til mistaka og vanþakklát við erum oft. Ég hef reynt að skilja friðþægingarfórn frelsarans með takmörkuðum huga mínum og eina útskýringin sem ég get komið upp með er þessi: Guð elskar okkur innilega, fullkomlega og eilíflega. Ég get ekki einu sinni reynt að áætla „hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur.“7

Áhrifamikil tjáning þess kærleika er oft nefnd í ritningunum guðsnáð – sú guðdómlega aðstoð og gjöf þess krafts sem við nýtum til að vaxa frá því að vera þær ófullkomnu og takmörkuðu verur sem við nú erum, í upphafnar verur „sannleika og [ljóss], þar til [við erum dýðleg gjörð] í sannleika og [vitum] alla hluti.“8

Hún er undraverður hlutur þessi guðsnáð. Samt er hún oft misskilin.9 Þrátt fyrir það ættum við að vera kunnug guðsnáð ef við ætlum að erfa það sem hefur verið undirbúið fyrir okkur í eilífu ríki hans.

Þess vegna vil ég ræða við ykkur um náð. Sérstaklega vil ég ræða við ykkur um hvernig náð opnar hlið himins,  og síðan hvernig hún lýkur upp gáttum himins.

Í fyrsta lagi: Náðin opnar hlið himins

Þar sem við höfum öll „syndgað og skortir Guðs dýrð,“10og vegna þess að „ekkert óhreint fær komist inn í Guðs ríki“11 þá erum við öll óverðug þess að snúa aftur til návistar Guðs.

Jafnvel þó að við myndum þjóna Guði af allri sálu okkar þá er það ekki nægilegt, því við myndum samt vera „óarðbærir þjónar.“12 Við getum ekki unnið fyrir aðgangi okkar inn til himins, kröfur réttvísinnar standa sem hindrun, sem við erum valdalaus að sigrast á hjálparlaust.

Samt er ekki allt vonlaust.

Guðsnáð er hin mikla og eilífa von okkar.

Miskunnaráætlunin fullnægir kröfum réttvísinnar í gegnum fórn Jesú Krists.13 og „[opnar] manninum leið til að öðlast trú til iðrunar.“14

Syndir okkar, þó þær séu rauðar sem skarlat þá geta þær orðið hvítar sem mjöll.15 Vegna þess að ástkær frelsari okkar „gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla“16 þá er okkur veittur inngangur í hið eilífa ríki Drottins.17

Hliðið hefur verið opnað!

Guðsnáð reisir okkur ekki einungis til okkar fyrra saklausa ástands. Ef sáluhjálp þýðir aðeins að mistök okkar og syndir séu þurrkaðar út, þá uppfyllir hún ekki – væntingar föðurins til okkar - eins dásamleg og hún samt er. Markmið hann er mikið hærra: Hann vill að synir hans og dætur verði eins og hann.

Með guðsnáð þá liggur leið lærisveinsins ekki aftur á bak heldur upp á við.

Hún liggur til hæða sem við getum varla skilið. Hún liggur til upphafningar í himneska ríki himnesks föður þar sem við meðtökum „af fyllingu hans og af dýrð hans.“18 Allt er okkar og við erum Krists.19 Fyrir því mun allt, sem faðirinn á, verða okkur gefið.20

Til að erfa þessa dýrð þá þurfum við meira en opið hlið; við verðum að ganga í gegnum þetta hlið með þrá í hjarta okkar um að verða breytt – svo stórbrotin breyting að ritningarnar lýsa því sem „[endurfæðingu]; Já, fæðast af Guði, hverfa úr [veraldlegu] og [föllnu hlutskipti] í faðm réttlætisins, endurleyst af Guði og verða synir hans og dætur“21

Í öðru lagi: Náðin lýkur upp gáttum himins

Annar hluti guðsnáðar er að ljúka upp gáttum himins, þaðan sem Guð hellir út blessunum styrktar og krafts, sem gerir okkur kleyft að afreka það sem annars væri utan seilingar fyrir okkur. Það er með undursamlegri náð sem börn hans geta sigrast á undiröldu og kviksyndum svikarans, risið yfir syndina og „[fullkomnast]í Kristi.“22

Þó að við höfum öll veikleika þá getum við sigrast á þeim. Sannarlega er það vegna náðar Guðs að veikleikar geta orðið að styrkleika23 ef við erum auðmjúk og höfum trú.

Í gegnum líf okkar þá veitir guðsnáð okkur veraldlegar blessanir og andlegar gjafir sem auka getu okkar og auðga líf okkar. Náð hans fágar okkur. Náð hans hjálpar okkur að bæta okkur eins mikið og hægt er.

Hver er þess umkominn að dæma um það?

Í Biblíunni lesum við um heimsókn Krists til faríseans Símonar.

Út á við virtist Símon vera góður og vandaður maður. Hann fór reglulega yfir listann sinn yfir trúarlegar skyldur sínar, hann fylgdi lögmálinu, borgaði tíundina sína, hélt hvíldardaginn heilagan, bað daglega og fór í bænarhúsið.

Þegar Jesús var hinsvegar hjá Símoni þá kom kona, þvoði fætur frelsarans með tárum sínum og smurði fætur hans með vandaðri olíu.

Símon var ekki ánægður með þessa tilbeiðslusýningu því hann vissi að þessi kona var syndari. Símon taldi að ef Jesús væri ekki meðvitaður um þetta þá gæti hann ekki verið spámaður því þá hefði hann hefði aldrei leyft konunni að snerta sig.

Þegar hann skynjaði hugsanir Símonar þá snéri Jesús sér að honum og spurði hann einnar spurningar. „Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. …annar skuldaði honum fimm hundruð denara, en hinn fimmtíu.

Nú gátu þeir ekkert borgað, og þá gaf hann báðum upp. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?

Símon svaraði: „Sá, hygg ég, sem hann gaf meira upp.“

Þá kenndi Jesús djúpstæða lexíu. „Sér þú konu þessa? Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar, enda elskar hún mikið, en sá elskar lítið, sem lítið er fyrirgefið.“24

Hvorri persónunni erum við líkari?

Erum við eins og Símon? Erum við örugg og afslöppuð í góðum verkum okkar og treystum á okkar eigið réttlæti? Erum við kannski örlítið óþolinmóð gagnvart þeim sem ekki ná að lifa eftir sömu stöðlum og við? Erum við á sjálfstýringu, gerum við allt án þess að leggja mikla hugsun í það, mætum á fundina okkar, geispum í gegnum Sunnudagaskóla og skoðum kannski farsímann okkar á sakramentissamkomu?

Erum við hins vegar eins og þessi kona, sem fannst hún vera algerlega týnd og án vonar vegna syndar.

Elskum við mikið?

Skiljum við hve skuldug við erum himneskum föður og grátbiðjum um guðsnáð af allri sálu okkar?

Þegar við krjúpum í bæn er það til að fara yfir afrekalista okkar eigin réttlætis eða til að játa mistök okkar, biðja Guð um miskunn og fella tár þakklætis fyrir hina stórkostlegu endurlausnaráætlun.25

Ekki er hægt að kaupa sáluhjálp með gjaldmiðli hlýðninnar, hún er keypt með blóði sonar Guðs.26 Að halda að við getum skipt okkar góðu verkum út fyrir sáluhjálp er eins og að kaupa sér flugmiða og reikna með því að við eigum þá flugfélagið. Að sama skapi að halda að þegar við séum búin að borga leiguna fyrir heimili okkar veiti það okkur eignarrétt að allri jörðinni.

Hvers vegna ættum við þá að hlýða?

Ef náð er gjöf Guðs, hvers vegna er hlýðnin við boðorð Guðs svona mikilvæg? Hvers vegna ættum við að hafa eitthvað fyrir boðorðum Guðs – eða þá heldur að iðrast? Hvers vegna ekki bara að viðurkenna að við séum syndug og láta Guð bjarga okkur?

Kannski að notum bara orð Páls: „Eigum vér að halda áfram í syndinni til þess að náðin aukist?“ Svar Páls er einfalt og skýrt: „Fjarri fer því.“27

Bræður og systur, við hlýðum boðorðum Guðs – af kærleika til hans!

Að reyna að skilja náðargjöf Guðs af öllu hjarta okkar og huga gefur okkur enn frekari ástæðu til að elska og hlýða himneskum föður okkar af auðmýkt og þakklæti. Er við göngum veg lærisveinsins þá fágar það okkur, bætir okkur, hjálpar okkur að verða líkari honum og leiðir okkur tilbaka í návist hans. „Andi Drottins [Guðs okkar] hefur valdið svo mikilli breytingu á okkur,…að við hneigjumst ekki lengur til illra verka, heldur stöðugt til góðra verka.“28

Þar af leiðandi er hlýðni okkar við boðorð Guðs eðlileg afleiðing óendanlegrar elsku okkar og þakklætis fyrir gæsku Guðs. Svona einlæg elska og þakklæti sameinar verk okkar við náð Guðs á undraverðan hátt. Dyggðir munu prýða hugsanir okkar linnulaust, og þá mun traust okkar vaxa og styrkjast í návist Guðs.29

Kæru bræður og systur, það er ekki byrði að lifa trúfastlega eftir fagnaðarerindinu. Það er ánægjuleg æfing – undirbúningur fyrir það að erfa hinar miklu dýrðir eilífðarinnar. Við leitumst við að hlýða himneskum föður vegna þess að andi okkar verður meira innstilltur á andlega hluti. Ný sjónarsvið opnast sem við höfðum aldrei vitað að væru til. Upplýsing og skilningur opnast þegar við gerum vilja föðurins.30

Náð er gjöf frá Guði og með þrá okkar um að vera hlýðin öllum boðorðum Guðs erum við að teygja fram jarðneska hönd okkar til að meðtaka helga gjöf frá himneskum föður.

Allt sem við getum gert.

Spámaðurinn Nefí lagði fram merkt framlag til skilnings okkar á náð Guðs er hann sagði„Vér ritum af kappi til að hvetja börn vor og einnig bræður vora til að trúa á Krist og sættast við Guð, því að vér vitum, að vér frelsumst fyrir náð, að afloknu öllu, sem vér getum gjört.31

Ég velti því hins vegar stundum fyrir mér hvort við misskiljum þessa setningu „að afloknu öllu, sem við getum gjört.“ Við verðum að skilja að „að afloknu“ er ekki það sama og „vegna.“

Við frelsumst ekki „vegna“ alls sem við getum gert. Hefur einhver okkar gert allt sem við getum gert? Bíður Guð eftir því að við höfum gert allt sem við getum áður en hann stígur inn í líf okkar með frelsandi náð sinni?

Margir eru vondaufir því að þeim finnst þeir alltaf vera að mistakast. Þeir vita frá fyrstu hendi að „Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.“32  Þeir lyfta röddum sínum með Nefí í að lýsa því yfir að: „sál mín harmar misgjörðir mínar.“33

Ég er þess fullviss að Nefí vissi að náð frelsarans leyfir og gerir okkur kleift að sigrast á synd.34Það er þess vegna sem Nefí starfaði svo ötullega við að sannfæra börn sín og bræður um að „trúa á Krist og sættast við Guð.“35

Þegar allt kemur til alls þá getum við það! Það er verk okkar í jarðlífinu!

Náð er öllum tiltæk.

Þegar ég hugsa um það sem frelsarinn gerði fyrir okkur fram að Páskasunnudegi þá langar mig til að reisa rödd mína og hrópa og vegsama Guð hinn hæsta og son hans Jesú Krist.

Hlið himins eru opin.

Gáttir himins eru opnar.

Guðsnáð er tiltæk öllum sem eru með sundurkramin hjörtu og sáriðrandi anda.36 Jesús hefur rutt veginn fyrir okkur til að stíga til hæða sem eru jarðneskum hugum óskiljanlegar.37

Ég bið þess að við getum séð með nýjum augum og nýju hjarta hið eilífa mikilvægi friðþægingarfórnar frelsarans. Ég bið þess að við munum sýna kærleika okkar til Guðs og þakklæti fyrir óendanlega náð Guðs, með því að halda boðorð hans og „ lifa nýju lífi“38  í gleði, í heilögu nafni meistarans og lausnarans Jesú Krists, amen.