2010–2019
Huggarinn
Apríl 2015


Huggarinn

Ég vitna um að hinn lifandi Kristur sendir heilagan anda, huggarann, til þeirra sem heita því að hjálpa honum að hugga.

Kæru bræður og systur, það hefur verið ánægjulegt að vera meðal ykkar. Mér hefur verið hugsað til móður minnar, eiginkonu, dætra, tengdadætra og barnabarna minna – sem margar hverjar eru hér. Þessi dásamlega samkoma hefur aukið þakklæti mitt fyrir þær. Ég geri mér grein fyrir því að það að eiga svona stórkostlega fjölskyldu og fjölskyldulíf kemur frá því að þau hafa haft frelsarann að þungamiðju lífs síns. Við höfum minnst hans í kvöld með tónlist, bænum og innblásnum ræðum. Einn af eiginleikum frelsarans, sem við erum þakklátust fyrir, er hin takmarkalausa samúð hans.

Í kvöld hafið þið skynjað að hann þekkir og elskar ykkur. Þið hafið fundið kærleika hans til þeirra sem í kringum ykkur eru. Þær eru systur ykkur, andadætur okkar himneska föður. Honum er annt um þær rétt eins og honum er annt um ykkur. Hann skilur allar sorgir þeirra. Hann vill hjálpa þeim.

Boðskapur minn til ykkar í kvöld er sá að þið getið og verðið að vera mikilvægur þáttur í því verki Drottins að hugga þá sem huggunar þarfnast. Þið getið best gert ykkar hlut, ef þið vitið meira um hvernig hann svarar þessum hjálparbænum.

Margir biðja til himnesks föður í leit að hjálp við að bera byrði eigin sorgar, einmannaleika og ótta. Himneskur faðir heyrir þessar bænir og skilur þarfir þeirra. Hann og elskaði sonur hans, hinn upprisni Jesú Kristur, hafa lofað að hjálpa.

Jesús Kristur gaf þetta fallega loforð:

„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“1

Friðþæging hans léttir þær byrðar sem trúfastir þjónar hans verða að bera í lífinu. Hægt er að fjarlæga byrðar syndarinnar en raunir þessa dauðlega lífs geta samt verið þungar byrðar fyrir gott fólk.

Þið hafið séð slíkar raunir í lífi góðs fólks sem ykkur er annt um. Þið hafið fundið fyrir löngun til að hjálpa þeim. Það er ástæða fyrir því að þið finnið fyrir samúð gagnvart þeim.

Þið eruð sáttmáls meðlimir kirkju Jesú Krists. Mikil breyting hófst í hjörtum ykkar er þið genguð í kirkjuna. Þið gerðuð sáttmála og þið hlutuð loforð sem tók að breyta eðli ykkar.

Alma lýsti í eigin orðum, við Mormónsvötn, því sem þið lofuðuð við skírn ykkar og merkingu þess fyrir ykkur sjálf og alla í kringum ykkur - sérstaklega fjölskyldur ykkar. Hann var að tala við þá sem voru um það bil að gera sömu sáttmálana sem þið hafið gert og þeir hlutu einnig loforðið sem Drottinn veitti ykkur.

„Sjá hér eru Mormónsvötn (því að svo nefndust þau), og þar sem þið þráið að komast í hjörð Guðs og kallast hans lýður og eruð fús til að bera hvers annars byrðar svo að þær verði léttar–

Já, og eruð fús að syrgja með syrgjendum, já, og hugga þá, sem huggunar þarfnast, og standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem þið kunnið að vera, já, allt til dauða, svo að Guð megi endurleysa ykkur og þið megið teljast með þeim, sem í fyrstu upprisunni verða, svo að þið megið öðlast eilíft líf.“2

Þetta er ástæðan fyrir því að þið viljið hjálpa þeim sem eiga erfitt með að bera þungar byrðar sorgar og erfiðleika. Þið lofuðuð að hjálpa Drottni við að létta byrðar þeirra og hugga þau. Þegar þið tókuð á móti gjöf heilags anda, hlutuð þið kraft til að aðstoða við að létta byrðar þeirra .

Þegar frelsarinn var í þann mund að verða krossfestur, lýsti hann því hvernig hann léttir byrðar og veitir okkur styrk til að bera þær. Hann vissi að lærisveinar hans myndu syrgja. Hann vissi að þeir myndu óttast framtíð sína. Hann vissi að þeir myndu efast um getu sína til að halda áfram.

Því gaf hann þeim loforðið sem hann gefur öllum sönnum lærisveinum hans:

„Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu,

anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður.“3

Síðan lofaði hann:

„En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.

Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“4

Á síðustu vikum hef ég séð þetta loforð, að senda heilagan anda, uppfyllast í lífi barna Guðs sem voru að biðja fyrir því að byrði þeirra yrði léttari. Kraftaverkið, að létta byrðarnar, kom á þann hátt sem Drottinn hafði lofað: Hann og himneskur faðir sendu heilagan anda, huggarann, til að aðstoða lærisveina hans.

Nýlega voru þrjár kynslóðir einnar fjölskyldu að syrgja andlát fimm ára gamals drengs. Hann lést í slysi þegar hann var í fríi með fjölskyldu sinni. Mér var veitt tækifæri til að sjá, enn á ný, hvernig Drottinn blessar hina trúföstu með hjálp og styrk til að standast.

Ég varð vitni að því þegar Drottinn létti byrðar þeirra. Ég var með þeim sem sáttmálsþjónn Drottins – eins og þið munið oft verða í ykkar lífi – „að syrgja með syrgjendum ... og hugga þá, sem huggunar þarfnast.“5

Vegna þess að ég vissi að þetta væri sannleikur þá var ég ánægður og fann fyrir friði þegar amman og afinn buðu mér að hitta sig, ásamt foreldrum drengsins, fyrir jarðaförina.

Ég leitaði eftir leiðsögn í bæn, hvernig ég gæti aðstoðað Drottinn við að hugga þau. Þau settust niður með mér í stofunni okkar. Það var kalt þetta kvöld svo ég hafði kveikt smá eld í arninum svo heitt yrði í stofunni.

Mér fannst sem ég ætti að segja þeim að mér þætti vænt um þau. Ég sagði þeim að ég hefði fundið fyrir elsku Drottins í þeirra garð. Ég reyndi að segja þeim, í örfáum orðum, að ég syrgði með þeim en að einungis Drottinn vissi og gæti fullkomlega upplifað sársauka þeirra og sorg.

Mér fannst ég innblásinn, eftir að hafa sagt þessi fáu orð, að hlusta af kærleika er þau ræddu um tilfinningar sínar.

Þau töluðu mun meira en ég þá klukkustund sem við sátum saman. Ég fann á röddum þeirra og sá í augum þeirra að heilagur andi snart þau. Með orðum einfalds vitnisburðar, ræddu þau um upplifun sína og tilfinningar. Heilagur andi hafði þegar veitt þeim friðinn sem kemur með voninni um eilíft líf, þegar sonur þeirra, sem dó syndlaus, gæti verið þeirra að eilífu.

Þegar ég veitti þeim, hvoru fyrir sig, prestdæmisblessun, þakkaði ég fyrir áhrif heilags anda sem þar var viðstaddur. Huggarinn hafði fært okkur öllum huggun, hvatningu og aukinn styrk.

Þetta kvöld, sá ég hvernig Drottinn vinnur að því að létta byrðar fólks síns. Þið munið eftir því í Mormónsbók þegar fólk hans hafði nær kiknað undan hinum þungu byrðum sem drottnarar þeirra höfðu lagt á þau.

Fólkið sárbað um líkn, rétt eins og svo margir sem við elskum og þjónum gera. Hér er heimildin, sem ég veit að er sönn:

„Og ég mun einnig létta byrðarnar, sem lagðar hafa verið á herðar yðar, já, svo að þér finnið ekki fyrir þeim á bökum yðar, jafnvel á meðan þér eruð ánauðug. Og þetta gjöri ég, til að þér verðið vitni mín héðan í frá og megið vita með vissu, að ég, Drottinn Guð, vitja fólks míns í þrengingum þess.

Og nú bar svo við, að byrðarnar, sem lagðar höfðu verið á Alma og bræður hans, urðu þeim léttari. Já, Drottinn gaf þeim svo mikinn styrk, að þeir gátu borið byrðar sínar léttilega og lutu vilja Guðs með gleði og þolinmæði.“6

Ég hef oft séð þetta kraftverk. Við léttum byrðar annarra mest með því að hjálpa Drottni að styrkja þau. Þetta er ástæðan fyrir því að Drottinn fól okkur að hugga aðra, er hann bauð okkur að vera vitni hans alltaf og allsstaðar.

Faðir og móðir litla drengsins báru vitni um frelsarann þetta kvöld í stofunni minni. Heilagur andi var viðstaddur og allir nutu hughreystingar. Foreldrarnir styrktust. Byrði sorgarinnar hvarf ekki en þau styrktust til að geta borið sorgina. Trú þeirra jókst. Styrkur þeirra mun líka halda áfram að aukast er þau biðja um trú og lifa á þann hátt.

Vitni andans um friðþæginguna, sem kom þetta kvöld, styrkti Job einnig í því að bera sínar byrðar:

„Ég veit, að lausnari minn lifir, og hann mun síðastur ganga fram á foldu.

Og eftir að þessi húð mín er sundurtætt og allt hold er af mér, mun ég líta Guð.“7

Það var vitni andans sem veitti honum styrk til að standast. Hann átti eftir að ganga í gegnum sorg og skort á huggun frá fólkinu í kringum hann til þess að upplifa gleðina sem hinir trúföstu hljóta eftir að hafa staðist trúfastlega raunir sínar.

Þannig var það fyrir Job. Hann hlaut blessanir í þessu lífi Saga Jobs endar á þessu kraftaverki:

„En Drottinn blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri,

Og eigi fundust svo fríðar konur í öllu landinu sem dætur Jobs, og faðir þeirra gaf þeim arf með bræðrum þeirra.

Og Job lifði eftir þetta hundrað og fjörutíu ár og sá börn sín og barnabörn, fjóra ættliði.

Og Job dó gamall og saddur lífdaga.“8

Það var vitni andans um hina komandi friðþægingu sem veitti Job mátt til að standast raunirnar sem lífið býður upp á. Það er hluti af hinni miklu sæluáætlun sem faðirinn veitti okkur. Hann leyfði syni sínum að veita okkur þá von, með friðþægingarfórn sinni, er huggar okkur, sama hversu erfið leiðin heim til hans er.

Faðirinn og sonurinn senda heilagan anda til að hugga og styrkja lærisveina meistarans á ferðalagi þeirra.

Ég sá þetta kraftaverk huggunar er ég kom að kapellunni þar sem jarðaför litla drengsins var haldin. Ég var stöðvaður af yndislegri ungri konu sem ég þekkti ekki. Hún sagðist hafa komið í jarðaförina til að syrgja og veita huggun, ef hún gæti.

Hún sagðist að hluta til hafa komið í jarðaförina fyrir sjálfa sig. Hún sagði mér að frumburður hennar hefði nýlega látist. Hún hélt á fallegri telpu í örmum sér. Ég hallaði mér að henni til að horfa í brosandi andlit telpunnar. Ég spurði móðurina: „Hvað heitir hún?“ Hún svaraði fljótt og glaðlega: „Hún heitir Joy. Gleði kemur alltaf á eftir sorg.“

Hún var að bera mér vitni sitt. Ég sá að hún hafði hlotið frið og huggun frá einu öruggu uppsprettunni. Einungis Guð þekkir hjartað og því getur einungis hann sagt í sannleika: „Ég veit hvernig þér líður.“ Því get ég einungis ímyndað mér bæði gleði hennar og þá sorg sem kom á undan, en Drottinn sem elskar hana, skilur.

Ég get einungis að hluta til vitað hversu mikla gleði hann upplifir í hvert sinn sem þið, sem lærisveinar hans, hjálpið honum að færa barni himnesks föður stund friðar og gleði.

Ég ber mitt vitni um að Drottinn hefur beðið okkur öll, lærisveina sína, að aðstoða við að bera hvers annars byrðar. Við höfum lofað að gera það. Ég ber ykkur minn vitnisburð að Drottinn hefur, með friðþægingu sinni og upprisu, rofið helsi dauðans. Ég vitna um að hinn lifandi Kristur sendir heilagan anda, huggarann, til þeirra sem heita því að hjálpa honum að hugga.

Þið eruð allar vitni, eins og ég, um sannleika þann sem grafinn er í næluna sem móðir mín bar í rúm 20 ár sem meðlimur aðalráðs Líknarfélagsins. Á nælunni stóð: „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“9 Enn í dag skil ég ekki til fulls þýðingu þessara orða. Hins vegar fékk ég nasasjón þegar ég sá hana hjálpa þeim sem í nauð voru. Ritningin segir okkur þennan sannleika: „Kærleikurinn er hin hreina ást Krists.“10

Elska hans dvín aldrei og við munum aldrei hætta að finna í hjörtum okkar þörf til „að syrgja með syrgjendum … og hugga þá, sem huggunar þarfnast.“11 Friðurinn mun heldur aldrei frá okkur hverfa, er við þjónum öðrum í hans þágu.

Sem hans vitni, þá þakka ég ykkur fyrir það sem þið gerið svo vel til að hjálpa hinum lifandi Drottni Jesú Kristi og heilögum anda, huggaranum, að styrkja veikbyggð kné og lyfta máttvana örmum.12 Af öllu hjarta, þá er ég þakklátur fyrir konurnar í lífi mínu sem hafa hjálpað mér og blessað mig sem sannir lærisveinar Jesú Krists. Í nafni Jesú Krists, amen.