2010–2019
Fjöll til að klífa
Apríl 2012


Fjöll til að klífa

Ef við eigum trú á Jesú Krist, geta bæði erfiðu tímarnir sem þeir auðveldu verið okkur blessun.

Ég heyrði eitt sinn á aðalráðstefnu Spencer W. Kimball forseta biðja Guð um að gefa sér fjöll til að klífa. Hann sagði: „Miklar áskoranir eru framundan, risavaxin tækifæri að takast á við. Ég fagna þeirri hrífandi tilhugsun og finnst ég eiga að segja auðmjúkur við Drottin: ‚Gef mér fjall þetta,‘ gef mér þessar áskoranir.“1

Ég hrærðist í hjarta, því ég vissi í raun um sumar þeirra áskorana og sumt það mótlæti sem hann hafði tekist á við. Ég þráði að verða líkari honum, hugrakkur þjónn Guðs. Svo kvöld eitt baðst ég fyrir um prófraun á hugrekki mitt. Ég man það greinilega. Ég kraup að kvöldi til í svefnherbergi mínu, fylltur slíkri trú að hjarta mitt virtist bresta.

Innan eins eða tveggja daga hlaut ég bænheyrslu. Mesta prófraun lífs míns fram að þessu kom mér á óvart og auðmýkti mig. Hún kenndi mér tvær lexíur. Í fyrsta lagi, hlaut ég skýra sönnun þess að Guð heyrði og svaraði trúarbæn minni. Og í öðru lagi lærði ég, og held enn áfram að læra, hvers vegna ég skynjaði af svo mikilli sannfæringu þetta kvöld að undursamlegri blessun hlytist af mótlæti mínu en gjaldið sem ég þurfti að greiða fyrir hana.

Mótlætið sem ég varð fyrir á þessum löngu liðna tíma virðist nú smávægilegt í samanburði við það sem síðar hefur komið ‒ yfir mig og ástvini mína. Mörg takist þið nú á við líkamlegar, andlegar og tilfinningalegar raunir, sem gætu knúið ykkur til að hrópa líkt og mikill og trúfastur þjónn Guðs gerði, sem ég er vel kunnugur. Hjúkrunarkona heyrði hann stynja af sársauka í rúmi sínu: „Hvers vegna kemur þetta fyrir mig, þegar ég hef allt mitt líf reynt að gera gott?“

Þið þekkið svar Drottins við þessari spurningu spámannsins Josephs Smith í fangaklefanum:

„Og verði þér varpað í gryfju eða í hendur morðingja og dauðadómur felldur yfir þér, verði þér kastað í djúpið, gjöri beljandi öldurnar samsæri gegn þér, verði ólmandi stormar óvinir þínir, myrkvist himnarnir og sameinist allar höfuðskepnurnar um að loka leiðinni, og umfram allt, opni skoltar heljar gin sitt upp á gátt fyrir þér, vita skaltu þá, sonur minn, að allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs.

Mannssonurinn hefur beygt sig undir allt þetta. Ert þú meiri en hann?

Hald þess vegna stefnu þinni, og prestdæmið mun vera með þér, því að takmörk þeirra eru sett, þeir komast ei lengra. Dagar þínir eru ákveðnir og ár þín skulu ekki verða færri. Óttast þess vegna ekki hvað maðurinn kann að gjöra, því að Guð verður með þér alltaf og að eilífu.”2

Ég finn ekkert betra svar við spurningunni um hvers vegna raunir koma og hvað okkur ber að gera, heldur en orð Drottins sjálfs, sem gekk í gegnum hræðilegri raunir en við fáum gert okkur í hugarlund.

Þið munið eftir orðum hans er hann bauð okkur að iðrast í trú á sig:

„Þess vegna býð ég þér að iðrast ‒ iðrast þú, ella mun ég ljósta þig með munnsprota mínum og með bræði minni og heilagri reiði, og þjáningar þínar verða sárar ‒ hversu sárar veist þú ekki, hversu nístandi veist þú ekki, já, hversu erfiðar að bera veist þú ekki.

Því að sjá, ég, Guð, hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást, ef þeir iðrast–

En iðrist þeir ekki, verða þeir að þjást, alveg eins og ég–

Þjáningu, sem varð þess valdandi, að ég, sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu, og þjáðist bæði á líkama og í anda og með hrolli óskaði ég þess að þurfa ekki að bergja þennan beiska bikar.

Dýrð sé föðurnum eigi að síður, og ég tæmdi hann og lauk undirbúningi mínum fyrir mannanna börn.”3

Þið og ég höfum trú á að leiðin til að takast á við og rísa ofar raunum sé að trúa því að til séu „smyrsl í Gíleað“4 og að Drottinn hafi lofað: „Ég mun eigi ... yfirgefa þig.“5 Thomas S. Monson forseti hefur kennt okkur þetta til að hjálpa okkur, og þeim sem við þjónum, að takast á við einmanalegar og yfirþyrmandi raunir.6

En Monson forseti hefur líka kennt þá visku að það taki tíma að byggja upp trúargrunn til að virkja þessi loforð. Þið gætuð hafa séð þörfina fyrir slíkan grunn, líkt og ég hef gert, við rúmstokk einhvers sem er að því kominn að gefast upp við að standast allt til enda. Sé trúin ekki vel grundvölluð í hjarta okkar, munum við ekki hafa kraft til að standast.

Ætlun mín í dag er að miðla ykkur vitneskju minni um hvernig við getum byggt upp slíkan öruggan trúargrunn. Það geri ég auðmjúkur af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi kunna orð mín að letja suma sem heyja baráttu í miklu mótlæti og finnst trúargrunnur sinn molna. Í öðru lagi veit ég að jafnvel meiri prófraunir bíða mín áður en lífið tekur enda. Forskriftina sem ég býð ykkur þarf ég því enn að láta reyna á til fulls í mínu lífi með því að standast allt til enda.

Þegar ég var ungur maður starfaði ég sem verktaki við að byggja sökkla og grunna að nýjum húsum. Það var erfitt á heitu sumri að búa jarðveginn undir mótin sem steypan var sett ofan í. Það voru engar vélar til. Við notuðum haka og skóflu. Að byggja varanlega undirstöðu að byggingu var erfitt á þessum tímum.

Það krafðist líka þolinmæði. Eftir að steypan var komin í mótin biðum við þess að hún harðnaði. Þótt við vildum gjarnan halda áfram við verkið, þurfti steypan að harðna í mótunum áður en við rifum þau af henni.

Og nýliðum var jafnvel enn meira undrunarefni hið þreytandi og tímafreka verk að setja járnbindinguna í mótin til að styrkja undirstöðuna enn frekar.

Trúargrunnur okkar verður, á líkan hátt, að vera vel úr garði gerður til að fá staðist stormana sem geysa í lífi allra. Hinn trausti jarðvegur fyrir trúargrunn er persónuleg ráðvendni.

Þegar við veljum stöðugt hið rétta, alltaf þegar við stöndum frammi fyrir því að velja, verður til góður jarðvegur fyrir trú okkar. Það getum við tekið að gera í barnæsku, því hverri sál er gefinn andi Krists. Með þeim anda getum við greint hvort við höfum gert rétt eða rangt frammi fyrir Guði.

Slíkir valkostir, sem oftast skipta hundruðum dag hvern, undirbúa góðan jarðveg til að reisa trúarbyggingu okkar á. Járnbindingin í sökklunum, sem við setjum trúarefnið okkar í, er fagnaðarerindi Jesú Krists, með öllum sínum sáttmálum, helgiathöfnum og reglum.

Einn lykillinn að óhagganlegri trú er að vita nákvæmlega hvað þornunartíminn er langur. Það er ástæðan fyrir því að ég var það óskynsamur að biðja þess svo ungur að fá að klífa hærri fjöll og takast á við erfiðari raunir.

Þornunin gerist ekki sjálfkrafa þegar við óskum, heldur tekur hún tíma. Það gerist ekki eingöngu með aldrinum. Við þurfum að þjóna Guði og öðrum stöðugt og af einlægum ásetningi, en þá mun vitnisburður um sannleikann stuðla að óþrjótandi andlegum styrk.

Ég vil hvetja þá sem takast á við miklar raunir og finnst trú þeirra dofna af sligandi erfiðleikum. Erfiðleikarnir geta verið leið til að styrkja ykkur og veita ykkur að lokum óhagganlega trú. Moróní, sonur Mormóns í Mormónsbók, greindi frá því hvernig slík blessun getur orðið að veruleika. Hann kennir þann einfalda og ljúfa raunveruleika að þótt trú okkar sé aðeins sem sproti, megnar Guð að rækta hana:

„Og nú vil ég, Moróní, segja nokkuð um þetta. Ég vil sýna heiminum, að trú er von um það, sem ekki er unnt að sjá. Deilið því ekki, sakir þess að þér sjáið ekki, því að þér fáið engan vitnisburð fyrr en eftir að reynt hefur á trú yðar.

Því að fyrir trú sýndi Kristur sig feðrum vorum eftir að hann hafði risið upp frá dauðum. Og hann birtist þeim ekki fyrr en þeir trúðu á hann. Þess vegna hljóta nokkrir að hafa trúað á hann, því að hann sýndi sig ekki heiminum.

En vegna trúar mannanna hefur hann sýnt sig heiminum og gjört nafn föðurins dýrðlegt og rutt veginn, svo að aðrir geti átt hlut í hinni himnesku gjöf og geti vonast eftir því, sem þeir hafa ekki séð.

Þess vegna getið þér einnig eignast von og hlutdeild í gjöfinni, ef þér aðeins trúið.“7

Dýrmætasti trúarsprotinn og sá sem varðveita ætti eins og sjáaldur augna okkar, er trú okkar á Drottin, Jesú Krist. Moróní sagði þetta um kraft slíkrar trúar: „Og aldrei nokkru sinni hafa nokkrir unnið kraftaverk fyrr en þeir hafa trúað. Þess vegna trúðu þeir fyrst á Guðssoninn.“8

Ég hef vitjað konu sem hlaut kraftaverk nægilegs styrks til að takast á við ólýsanlegan missi, með því einfaldlega að endurtaka sífellt orðin: „Ég veit minn lifir lausnarinn.“9 Þessi trúarstyrkjandi orð hennar og vitnisburður voru þar enn í myrkrinu sem skall á, þau höfðu ekki horfið úr minni hennar frá bernsku.

Það kom mér á óvart þegar ég komst að því að kona ein hafði getað fyrirgefið manneskju sem hafði árum saman misboðið henni. Ég undraðist og spurði hana hvers vegna hún hefði ákveðið að fyrirgefa og gleyma svo áralangri illri meðferð.

Hún sagði hljóðlega: „Þetta var erfiðast af öllu því sem ég hef áður tekist á við. Ég bara vissi að ég varð að gera það og því gerði ég það.“ Trú hennar á að frelsarinn mundi fyrirgefa henni, ef hún fyrirgæfi öðrum, veitti henni frið og von, er hún tókst á við dauða sinn aðeins fáeinum mánuðum eftir að hún hafi fyrirgefið iðrunarlausum misgjörðamanni sínum.

Hún spurði mig síðan: „Hvernig verður það á himnum, er ég kem þangað?“

Og ég svaraði: „Samkvæmt því sem ég hef séð af getu þinni til að iðka trú og fyrirgefa, þá mun það verða þér dásamleg heimkoma.“

Hér er önnur hvatning fyrir þá sem nú velta fyrir sér hvort trú þeirra á Jesú Krist dugi þeim til að standast með sóma allt til enda. Ég nýt þeirrar blessunar að hafa þekkt sum ykkar sem nú hlusta, þegar þið voruð yngri, þróttmeiri og hæfileikaríkari en flestir umhverfis ykkur, en samt ákváðuð þið að gera það sem frelsarinn hefði gert. Af göfuglyndi ykkar fundið þið leiðir til að aðstoða og annast þá sem þið hefðuð getað sniðgengið eða litið niður á frá ykkar stalli í lífinu.

Þegar miklir erfiðleikar koma, verður trúin fyrir hendi til að sigrast vel á þeim, því hún vex ómeðvitað er þið tileinkið ykkur hina hreinu ást Krists með því að þjóna og fyrirgefa, líkt og frelsarinn hefði gert. Þið byggið trúargrunn með því að elska líkt og frelsarinn gerði og þjóna fyrir hann. Trú ykkar á hann leiðir til kærleiksverka sem munu vekja ykkur von.

Það er aldrei of seint að efla trúargrunn sinn. Það er alltaf tími til þess. Í trú á frelsarann getið þið iðrast og sárbeðið um fyrirgefningu. Sá er til sem þið getið fyrirgefið. Sá er til sem þið getið fært þakkir. Sá er til sem þið getið þjónað og uppörvað. Þið getið gert þetta hvar sem þið eruð og hversu einmana og yfirgefin sem ykkur finnst þið vera.

Ég get ekki lofað að mótlæti ykkar taki enda í þessu lífi. Ég get ekki fullvissað ykkur um að ykkur muni finnast raunir ykkar standa stutt yfir. Eitt af því sem fylgir raunum lífsins er að tíminn virðist hægja á sér og næstum stöðvast.

Það eru ástæður fyrir því. Að þekkja þær ástæður veitir kannski ekki mikla huggun, en þær geta aukið þolinmæði okkar. Slíkar ástæður eiga rætur í þessari einu staðreynd: Af fullkominni elsku til okkar þrá himneskur faðir og frelsarinn að við verðum hæf til að dvelja hjá þeim um eilífð sem fjölskylda. Aðeins þeir sem laugaðir eru algjörlega hreinir með friðþægingu Jesú Krists geta gert það.

Móðir mín barðist við krabbamein í 10 ár. Meðferðir og skurðaðgerðir og loks sængurlega voru sumar af raunum hennar.

Ég man eftir þessum orðum föður míns við hennar síðasta andardrátt: „Lítil stúlka fer nú heim til að hvílast.“

Einn af þeim sem hélt ræðu við útför hennar var Spencer W. Kimball forseti. Ég minnist þess að hann sagði meðal annars í kveðjuorðum sínum eitthvað á þessa vegu: „Sum ykkar kunna að hugsa að Mildred hafði þjáðst svo mikið og lengi vegna þess að hún hafi gert eitthvað sem hafi valdið raunum hennar. Síðan sagði hann: „Nei, Guð vildi bara fága hana örlítið betur.“ Ég minnist þess að hafa þá hugsað: „Hvað ætli bíði mín, úr því að fága þurfti slíka afbragðs konu svo mikið?“

Ef við eigum trú á Jesú Krist, geta bæði erfiðu tímarnir sem þeir auðveldu verið okkur blessun. Við getum valið hið rétta með leiðsögn andans í öllum aðstæðum. Við höfum fagnaðarerindi Jesú Krists til að móta og leiða okkur, ef við veljum það. Við getum lifað í fullkominni von og friði, með spámenn sem opinbera okkur hvar við stöndum í áætlun hjálpræðis. Okkur þarf aldrei að finnast við vera ein eða ástlaus í þjónustu Drottins, því við erum það aldrei. Við getum fundið elsku Guðs. Frelsarinn hefur lofað englum, okkur til vinstri og hægri handar til að styðja okkur.10 Og hann efnir alltaf orð sín.

Ég ber vitni um að Guð, faðirinn, lifir og að ástkær sonur hans er frelsari okkar. Heilagur andi hefur staðfest sannleika á þessari ráðstefnu og mun gera það áfram er þið hlustið og leitið hans og síðar lærið boðskap lögmætra þjóna Drottins sem hér eru. Thomas S. Monson forseti er nú spámaður Drottins fyrir allan heiminn. Drottinn vakir yfir ykkur. Guð faðirinn lifir. Hans ástkæri sonur, Jesús Kristur, er frelsari okkar. Elska hans er óbrigðul. Um þetta vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.