Jólasamkomur
Fjórar gjafir sem Jesús Kristur býður okkur


Fjórar gjafir sem Jesús Kristur býður okkur

Kæru bræður mínir og systur, hve dásamleg jólatíðin er! Við elskum hljómfall lagsins „Guðs kristni í heimi“1 og dáumst innilega að honum: Jesú Kristi – hinu einstæða barni frá Betlehem – „hinum mikla Jehóva Gamla testamentisins [og] Messíasar Nýja testamentisins.“2

Í kvöld skulum við hugleiða saman blessanir þess að einblína á líf, hlutverk, kenningu og friðþægingu Drottins Jesú Krists. Ég býð ykkur, líkt og Benjamín konungur gerði á hans tíma, „að [þið] hugleiðið blessun og hamingju þeirra, sem halda boðorð Guðs.“ Sú blessun er fyrir okkur, hér og nú, en að henni viðbættri er hið endanlega fyrirheit um „[óendanlega] sælu.“3 Með öðrum og einfaldari orðum, sannir fylgjendur Jesú Krists njóta þeirra forréttinda að upplifa ólýsanlega ævarandi gleði.

Ég var minntur á þetta um daginn er ég hitti engil að nafni Lydia. Sá engill var ekki hvítklæddur og hún auðveldaði okkur að hittast með því að koma á skrifstofuna mína. Lydia er 12 ára gömul. Mér var sagt að hún þjáðist af sjaldgæfu og óvægnu heilakrabbameini.4 Ásjóna hennar er engilbjört og fas hennar þroskaðra en aldurinn segir til um. Þegar við ræddum um líf hennar og komandi tíð, var hún yfirveguð og friðsæl. Þegar ég spurði hvort hún hefði einhverjar spurningar, spurði hún samstundis: „Hvernig er himinninn?“ Það leiddi til innilegra umræðna um tilgang lífsins og blessanirnar sem himneskur faðir og hans ástkæri sonur bjóða þeim sem virða og vegsama þá.

Ljósmynd
Lydia og Nelson forseti

Ég hrífst innilega af trú Lydiu og fjölskyldu hennar! Þótt Lydia standi frammi fyrir risavaxinni áskorun í þessu jarðlífi, er hún fyllt trú. Hún hefur eilífa yfirsýn. Hún veit að Drottinn elskar hana og mun annast hana. Hennar trúfasta fjölskylda er fyllt þessari sömu stillingu og friðsæld, sem aðeins veitist fyrir trú á Drottin.

Ósk Lydiu var að hitta forseta kirkju Drottins, en þrá hennar er dýpri en sem nemur einni upplifun hér í jarðlífinu. Hennar dýpsta þrá er að njóta eilífra samvista við fjölskyldu sína í hinni himnesku umgjörð. Hún þráir því líka að njóta eilífra samvista við himneskan föður og Jesú.

Þrár okkar hafa vissulega mikil mótandi áhrif á okkur, ekki aðeins hér, heldur handan þessa lífs. Íhugið merkingu þessara orða Alma: „[Drottinn veitir mönnum] í samræmi við þrá þeirra.“5

Þrá er mikilvæg í þessari gjafatíð, er við hugum sérstakleg að þrám þeirra sem við elskum. Ég hvet ykkur líka til að huga að eigin þrám í þessari jólatíð. Hverjar eru dýpstu þrár ykkar? Hvað viljið þið í raun upplifa og hverju áorka í þessu lífi? Viljið þið í raun verða stöðugt líkari Jesú Kristi? Viljið þið í raun dvelja að eilífu hjá himneskum föður, ásamt fjölskyldu ykkar, og lifa eins og hann lifir?

Ef svo er, munið þið vilja taka á móti hinum mörgu gjöfum Drottins, okkur til hjálpar á þessum tíma jarðneskrar prófraunar. Við skulum ræða um fjórar þeirra gjafa sem Jesús Kristur gaf öllum þeim sem fúslega vilja taka á móti þeim.6

Í fyrsta lagi, gaf hann okkur ótakmarkaða hæfileika til að elska. Í því felst að geta elskað þá sem erfitt er að elska, sem eru ekki aðeins þeir sem ekki elska ykkur, heldur líka þeir sem nú ofsækja og misnota ykkur.7

Með hjálp frelsarans, getum við lært að elska eins og hann elskar. Það gæti krafist umbreytingar hjartans – vissulega mildara hjarta – er frelsarinn sýnir okkur hvernig í raun á að annast hvert annað. Kæru bræður og systur, við getum sannlega þjónað að hætti Drottins, er við tökum á móti kærleiksgjöf hans.

Biðjið um hjálp Drottins við að elska þá sem hann vill að þið elskið, sem líka eru þeir sem ekki alltaf er auðveld að sýna ástúð. Þið gætuð jafnvel beðið Guð um að englar hans verði með ykkur á þeim vegi sem þið hefðuð helst ekki viljað fara á þessum tíma.8

Í öðru lagi, býður frelsarinn ykkur gjöfina að geta fyrirgefið. Fyrir tilstilli hans altæku friðþægingar, getið þið fyrirgefið þeim sem hafa sært ykkur og þeim sem aldrei munu gangast við ábyrgð illskuverks síns á ykkur.

Að öllu jöfnu er auðvelt að fyrirgefa þeim sem af einlægni leita eftir fyrirgefningu ykkar. Frelsarinn mun þó gera ykkur kleift að fyrirgefa hverjum þeim sem á einhvern hátt hefur misboðið ykkur. Eftir það mun sú sársaukafulla iðja ekki lengur hrella sál ykkar.

Í þriðja lagi, er það sú gjöf frelsarans að geta iðrast. Sú gjöf er ekki alltaf fyllilega skilin. Líkt og ykkur er kunnugt, þá var Nýja testamentið upphaflega ritað á grísku. Í þeim versum þar sem frelsarinn kallar fólk til iðrunar, er hugtakið að „iðrast“ þýtt af gríska hugtakinu metanoeo.9 Þetta er sterk grísk áhrifasögn. Forskeytið meta hefur merkinguna að „breyta.“ Við notum líka þetta forskeyti í ensku máli. Hugtakið metamorphosis merkir til dæmis að „breytast að formi eða lögun.“ Viðskeytið noeo á rætur í grísku hugtaki sem merkir „hugur.“10 Það á líka rætur í öðrum grískum hugtökum sem merkja „þekking,“11 „andi,“12 og „andardráttur.“13

Fáum við skynjað breidd og dýpt þess sem Drottinn er að gefa okkur með því að bjóða okkur gjöfina að geta iðrast? Hann býður okkur að breyta eigin hugarfari, þekkingu, anda og jafnvel andardrætti. Þegar við til dæmis iðrumst, þá fyllumst við anda þakklætis til Guðs, sem ljáir okkur lífsandann dag frá degi.14 Við þráum þá að nota þann lífsanda til að þjóna honum og börnum hans. Iðrun er ljómandi gjöf. Hún er atferli sem aldrei ætti að óttast. Hún er gjöf sem við ættum að veita viðtöku af gleði – já, dásama – dag fyrir dag, er við reynum að verða líkari frelsaranum.

Faðir Lamons konungs fékk leiftursýn af því sem fyrir þeim liggur sem trúa á Krist og fylgja honum. Hann lýsti yfir að hann myndi láta af öllum syndum sínum, fyrir þau forréttindi að þekkja Drottin.15 Sönn iðrun er ekki einn atburður. Hún er óendanleg forréttindi. Hún er grundvöllur framþróunar, samviskufriðar, hugarrór og gleði.

Í fjórða lagi, er það gjöf frelsarans sem í raun er loforð – loforðið um eilíft líf Það merkir ekki bara að lifa í afskaplega langan tíma. Allir munu lifa óendanlega lengi eftir dauðann, burt séð frá því dýrðarríki sem hæfir hverjum og einum. Allir munu rísa upp og upplifa ódauðleika. Eilíft líf er aftur á móti svo miklu meira en ómældur tími. Eilíft líf eru þau lífsgæði sem himneskur faðir og hans ástkæri sonur búa við. Þegar faðirinn býður okkur eilíft líf, er hann í raun að segja: „Ef þú ákveður að fylgja syni mínum – ef þú þráir raunverulega að verða líkari honum – muntu með tímanum búa við okkar lífsgæði og ríkja yfir heimum og ríkjum, eins og við gerum.“

Þessar fjórar einstöku gjafir munu færa okkur stöðugt meiri gleði er við veitum þeim viðtöku. Þær urðu að veruleika sökum þess að Jehóva lét svo lágt að koma til jarðar sem barnið Jesú. Hann var afsprengi ódauðlegs föður og jarðneskrar móður. Hann fæddist í Betlehem, við fábrotnustu aðstæður. Hans helgu fæðingu sáu spámenn fyrir, allt frá dögum Adams. Jesús Kristur er óviðjafnanleg gjöf Guðs – gjöf föðurins til allra barna sinna.16 Þeirri fæðingu fögnum við á hverjum jólum.

Hvað þurfum við þá að gera, sé auglit okkar þannig einbeitt á frelsara heimsins, hugarfarslega og tilfinningalega, til að veita þessum gjöfum viðtöku, sem Jesús Kristur býður okkur svo fúslega? Hver er lykillinn að því að elska eins og hann elskar, fyrirgefa eins og hann fyrirgefur, iðrast til að verða líkari honum og dvelja að lokum hjá honum og himneskum föður okkar?

Lykillinn er að gera og halda sáttmála. Við veljum að taka framförum og vera á sáttmálsvegi Drottins og halda okkur á honum. Sá vegur er ekki flókinn. Þetta er leiðin að sannri gleði í þessu lífi og eilífu lífi handan við það.

Kæru bræður mínir og systur, mín dýpsta þrá er að öllum börnum himnesks föður gefist kostur á að hlýða á fagnaðarerindi Jesú Krists og hlíta kenningum hans og að Ísrael sé safnað saman á þessum síðari dögum, líkt og lofað hefur verið. Ég bið þess að við munum trúa og veita viðtöku þeirri elsku sem frelsarinn ber til hvers okkar. Hans óendanlega og fullkomna elska knúði hann til að friðþægja fyrir þig og mig. Sú gjöf – friðþæging hans – gerir okkur mögulegt að njóta allra annarra gjafa hans.

Á degi komanda – í því þúsund ára ríki sem við nú búum okkur undir – mun „sérhvert kné beygja sig og sérhver tunga gjöra játningu fyrir honum“17 að Jesús er Kristur. Þá verður það ekki einungis hinn stórbrotni Laufskálakór Musteristorgsins sem syngur „Hallelúja.“18 Allir þeir sem kosið hafa að fylgja Jesú Kristi, munu syngja og hrópa: „Hallelúja: Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn.“19 „Drottinn og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda,“20 „Konungur konunga og Drottinn drottna.“21

Ég ber vitni um að Guð lifir! Jesús er Kristur – Messías. Þetta er hans kirkja, sem hann leiðir með spámönnum sínum. Af auðmýkt færum við hverju ykkar blessanir hans, auk þrár og getu til að veita öllum þeim gjöfum viðtöku sem frelsarinn býður ykkur, í nafni Jesú Krists, amen.